Eins og lesendur þessarar síðu vita höfum við allt frá því að drög Hönnu Katrínar Friðrikssonar atvinnuvegaráðherra að frumvarpi til laga um lagareldi komu fram í desember velt því fyrir okkur hvað væri í gangi í ráðuneytinu

Stórmerkilegar upplýsingar komu fram í fréttaskýringaþættinum Þetta helst á Rás eitt nú í hádeginu sem varpa nýju ljósi á vinnuna við frumvarpsdrög atvinnuvegaráðherra, en þau byggja að stórum hluta á frumvarpi sem var unnið í tíð síðustu ríkisstjórnar.
Í þættinum koma fram að stjórnendur ráðuneytisins réðu utanaðkomandi lögfræðing að samningu frumvarpsins bæði í tíð fyrri ríkisstjórnar og þeirra draga sem lögð voru fram nú í desember.
Sá heitir Arnaldur Jón Gunnarsson og hefur verið á toppi eða við topp launahæstu lögfræðinga landsins mörg undanfarin ár.
Arnaldur Jón starfaði um árabil fyrir slitastjórn Kaupþings og var meðal annars kenndur við það félag á lista Frjálsrar verslunar yfir launahæstu lögmenn landsins 2023.
Frumvarpsdrögin eru unnin á skrifstofu auðlinda í atvinnuvegaráðuneytinu, áður skrifstofu fiskeldis í matvælaráðuneytinu. Skrifstofustjóri í báðum tilvikum er Kolbeinn Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) og fyrrverandi starfsmaður slitastjórnar Kaupþings og deilir því þeim bakgrunni með Arnaldi Jóni.
Í fréttaskýringaþættinum kom fram að atvinnuvegaráðuneytið hefur ekki fengist til að gefa upplýsingar um laun Arnaldar Jóns fyrir aðkomu hans að frumvörpunum, þó lauk vinnu hans sumarið 2024 við fyrra frumvarp. Afar sérstakt er að þær upplýsingar séu ekki aðgengilegar. Þær hljóta að koma fram á næstu dögum. Staðfest var í þættinum að Arnaldur Jón er enn við vinnu að núverandi frumvarpi sem ytri ráðgjafi.
Óþarfi er að efast um hversu óheppilegt það er að fela fyrrverandi framkvæmdastjóra SFS með liðsstyrk eins hæst launaða fyrirtækjalögfræðingi landsins að semja frumvarp þar sem á að gæta hagsmuna alls almennings gagnvart ágengri og mengandi starfsemi stórfyrirtækja. Drögin eru svo afdráttarlaust sniðin að hagsmunum fjögurra sjókvíeldisfyrirtækja.
Slagsíðan er svo grímulaus að hún vekur furðu langt út fyrir raðir náttúruverndarsamtaka.
Má þar til dæmis benda á þessi orð úr umsögn VETAQ, sem er stærsta heilbrigðisþjónusta fyrir lagareldi á Íslandi og býr að þekkingu dýralækna með áralanga reynslu innan heilbrigðis- og velferðarmála í fiskeldi:
„Það vekur undrun okkar að svo lítil áhersla sé sett á velferð og heilbrigði eldisstofns í drögum að frumvarpi um lög um fiskeldi.“
Nú vitum við af hverju þetta er svona.
Þátturinn þetta helst, Umsjón: Ingi Freyr Vilhjálmsson
SVFR hvetur félagsmenn til að standa vörð um villta laxinn og íslenska náttúru

