Næstum helmingur bíla með athugasemd í skoðun

Nýjar tölur frá Danmörku eru sláandi fyrir vinsælasta rafbíl heims. Samkeppnisbílar hafa flestir farið athugasemdalítið eða -laust í gegnum fyrstu aðalskoðun.
Tesla Model Y hefur verið langsöluhæsti bíllinn á Íslandi síðustu ár en yfir 6.700 bílar hafa verið nýskráðir frá því að bíllinn kom á markað 2021. Nýlegar tölur frá dönsku Samgöngustofnuninni (Færdselsstyrelsen) valda mörgum áhyggjum. Í fyrstu skyldubundnu aðalskoðun Tesla Model Y (fjögurra ára skoðun) stóðust 45% þeirra ekki skoðun og gert að koma í endurskoðun.
Sláandi munur á Tesla og keppinautum
FDM, systurfélag FÍB í Danmörku, segir niðurstöðurnar alvarlegar og hlutfall athugasemda fyrir svo nýja bíla sé allt of hátt. Til samanburðar var hlutfall athugasemda yfir alla rafbíla í Danmörku að meðaltali 7%. Helsti keppinauturinn, VW ID.4, kom vel út með aðeins 2% endurskoðunarhlutfall.
| Tölfræði um skoðun rafbíla í Danmörku 2025 | |||||
| Bílgerð | Heildarfjöldi bíla | Staðist skoðun | Athuga-semd | Endur-skoðun | Endurskoðun % |
| Tesla Model Y | 2.394 | 1.281 | 44 | 1.069 | 45% |
| VW ID4 | 7.121 | 6.292 | 651 | 178 | 2% |
| Tesla Model 3 | 8.564 | 5.438 | 189 | 2.937 | 34% |
Hverjir eru veikleikarnir?
Lone Otto, tæknilegur ráðgjafi hjá FDM, segir að það sé ekki bara eitthvað eitt atriði að bila heldur sé um að ræða nokkra veikleika. Algengustu bilanirnar sem tengja má endurskoðun á Model Y:
-
- Slit í spyrnum og stýrisbúnaði: Hjá 22% Tesla Model Y fannst sláttur eða slit í spyrnufóðringum. Samsvarandi tala hjá VW ID.4 var aðeins 0,1%.
-
- Bremsubúnaður: Eins og á mörgum rafbílum er tæring á bremsudiskum vandamál, en Tesla virðist viðkvæmari fyrir ryði á hemlabúnaði.
-
- Ljósabúnaður: Vanstilling eða bilanir í ljósum.
Af hverju gerist þetta?
Sérfræðingar FDM benda á tvær meginástæður. Í fyrsta lagi mælir Tesla ekki með föstum, þjónustuskoðunum eins og margir aðrir framleiðendur. Margir Tesla bílar fara í skoðun eftir fjögur ár og hafa þá aldrei farið inn á þjónustuverkstæði.
Í öðru lagi er Tesla bílum í Danmörku að jafnaði ekið mun meira en öðrum rafbílum. Bílarnir eru verulega þungir og búa yfir miklu afli og þar með hröðun sem reynir mikið á stýrisbúnað og fóðringar.
Staðan á Íslandi
Ekki hafa verið birtar sambærilegar heildstæðar tölur frá íslenskum skoðunarstöðvum. Samgöngustofa hefur látið hjá líða að birta upplýsingar um niðurstöður skoðana hjá faggiltum bifreiðaskoðunarstofum á liðnum árum. FÍB hefur óskað eftir þessum gögnum frá Samgöngustofu. Skoðunarstöðvarnar gegna lögbundnu hlutverki við að framkvæma skoðanir sem lögáskilið er að fram fari samkvæmt opinberum kröfum.
Vonir standa til að hægt verði að birta sambærilegar tölur og birtar eru í nágrannalöndum okkar sem fyrst. Það væri fróðlegt að sjá hvort niðurstöður skoðana á Tesla bílum hér á landi séu svipaðar og á hinum Norðurlöndunum. Model Y er algengasti nýlegi bíllinn á íslenskum vegum og miðlun þessara upplýsinga skiptir verulegu máli fyrir neytendur og varðar umferðaröryggi allra vegfarenda.
Ráðlegging til Tesla eigenda
Sérfræðingar FDM mæla með því að eigendur Tesla bíla láti meta ástand ökutækja sinna áður en fimm ára ábyrgðin (eða 100.000 km) rennur út. Það er mat sérfræðinga FDM að mörg þessara vandamála geti fallið undir ábyrgð sé þeim fylgt eftir í tæka tíð. FÍB tekur undir þessar ábendingar FDM og hvetur Tesla eigendur á Íslandi til að gera það einnig.
Nánari upplýsingar má nálgast á vef FDM.

