Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnukvótinn verði allt að 197 þúsund tonn. Loðnuleitin gekk vel og því verður loðnuvertíðin stærri en áður hafði verið áætlað
Hafrannsóknastofnun mælti upphaflega með 44 þúsund tonna veiði en vegna jákvæðrar niðurstöðu mælinga var fallið frá því. Hafrannsóknastofnun hefur lagt til að afli loðnu verði allt að 197.474 tonn á fiskveiðiárinu 2025/2026.
Tillögurnar byggja á niðurstöðum loðnumælinga sem fóru fram dagana 19.-25. janúar sl. Einnig er tekið mið af gildandi aflareglu strandríkja sem byggir á niðurstöðum haustmælinga árið 2025 og fyrrgreindrar vetrarmælingar. Heildaraflamark skiptist á milli Íslands, Grænlands og Noregs samkvæmt strandríkjasamningi og er hlutdeild Íslands 81%, Grænlands 18% og Noregs 1%. Í gegnum tvíhliða samning Íslands og Færeyja er hlutdeild Færeyja 5% af heildaraflamarki í loðnu og er dregin af hlutdeild Íslands.
Aflamark Íslands miðað við þessa niðurstöðu er 150.860 tonn að teknu tilliti til strandríkjasamnings, skiptingu Íslands og Grænlands á hlutdeild Noregs og uppgjöri á umframveiði síðasta árs. Grænland og Færeyjar eru með heimildir til að stunda veiðar á loðnu innan efnahagslögsögu Íslands. Aukningin er 118 þúsund tonn frá fyrri ráðgjöf frá Hafrannsóknarstofnun fyrir Ísland.
„Þetta eru virkilega gleðilegar fréttir þar sem loðnuvertíðir síðustu tveggja ára hafa vægast sagt verið slæmar. Ráðgjöfin var núll árið 2024 og í fyrra var hún upp rúmlega 8.000 tonn. Við áætlum að þessi vertíð nú gefi útflutningsverðmæti upp á yfir 20 milljarða króna” segir Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra. „Þetta eru því sannarlega góðar fréttir fyrir þjóðarbúið en ekki síður fyrir þau sveitarfélög þar sem loðnan er unnin. Ekki má svo gleyma því hversu mikilvægt þetta er fyrir allt vistkerfið, því loðnan er einnig mikilvægur hluti fæðu annara stórra nytjastofna eins og þorsks og fleiri botnfisktegunda. Það er síðan vert að nefna að niðurstöður loðnuleiðangurs Hafrannsóknastofnunar sl. haust gefa vísbendingar um góða vertíð á næsta ári,“
Mælingar Hafrannsóknastofnunar náðu yfir stórt svæði norðvestur, norður, norðaustur og austur af landinu og tóku fimm skip þátt í mælingunum. Aðstæður til mælinga voru ágætar og hvorki veður né hafís höfðu teljandi áhrif á niðurstöður mælinga. Loðnan var dreifð yfir stóran hluta svæðisins og var mestur þéttleiki í fremsta hluta göngunnar fyrir austan land og út af Húnaflóa. Í heild mældist veiðistofninn 710 þúsund tonn. Um 55% stofnsins (382 þúsund tonn) var austan við land og gert er ráð fyrir að hann fylgi hefðbundinni hrygningargöngu suður og vestur fyrir land. Um 45% (328 þúsund tonn) mældust norðvestan við landið.

