Veðurstofan hefur gefið út appelsínugula viðvörun fyrir allt landið, vegna aftakaveðurs á morgun. Spáð er stormi, roki og stórhríð á öllu landinu. Meðalvindhraði verður á bilinu 20 til 28 metrar á sekúndu en mun hvassara verður í vindhviðum. Veðrið skellur á í kvöld og í nótt.

Hugleiðingar veðurfræðings
Vaxandi norðaustanátt í dag, 15-25 m/s eftir hádegi, hvassast undir Eyjafjöllum og í Öræfum, en gular vindviðvaranir eru í gildi fyrir sunnan- og vestanvert landið. Það verða víða él en úrkomulítið á suðvestanverðu landinu, og frostið verður yfirleitt 0 til 10 stig að deginum, kaldast í innsveitum norðanlands.

Það bætir í vind og ofankomu í kvöld og nótt, víða norðaustan stormur eða rok og hríðarveður á morgun, og eru líkur á að færð geti spillst í flestum landshlutum. Það hlýnar með deginum, og síðdegis verður úrkoman orðin að rigningu um landið sunnan- og austanvert. Seint á morgun og aðfaranótt mánudags dregur svo úr vindi á öllu landinu.

Veðurhorfur á landinu
Vaxandi norðaustanátt, 15-25 m/s eftir hádegi, hvassast syðst. Víða él en úrkomulítið á suðvestanverðu landinu. Frost 2 til 10 stig, kaldast fyrir norðan.
Bætir í vind og ofankomu í kvöld og nótt, víða norðaustan stormur eða rok á morgun með talsverðri snjókomu og skafrenningi. Hlýnar með deginum, fer að rigna um landið sunnan- og austanvert síðdegis og dregur úr vindi þar.

Appelsínugul viðvörun  vegna veðurs: Suðurland, Faxaflói, Breiðafjörður, Vestfirðir, Strandir og norðurland vestra, Norðurland eystra, Austurland að Glettingi, 

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á mánudag:
Sunnan og suðvestan 10-18 m/s með skúrum og síðar éljum, úrkomumest á sunnanverðu landinu. Kólnandi veður, hiti 0 til 5 stig seinnipartinn.

Á þriðjudag:
Fremur hæg breytileg átt, þurrt að mestu og bjart á köflum. Gengur í norðvestan strekking undir kvöld með éljum norðantil á landinu. Hiti um og undir frostmarki

Á miðvikudag:
Breytileg átt 3-10. Víða þurrt og bjart veður, en dálítil él norðaustantil á landinu og einnig með suðurströndinni. Frost 0 til 4 stig.

Á fimmtudag (skírdagur):
Austlæg átt með bjartviðri og vægu frosti um landið norðanvert, en lítilsháttar væta sunnanlands með hita 1 til 6 stig.

Á föstudag (föstudagurinn langi):
Suðlæg átt og rigning með köflum, en snjókoma í fyrstu norðantil á landinu. Hlýnandi veður.
Spá gerð: 04.04.2020 08:28. Gildir til: 11.04.2020 12:00.