TF-SIF, eftirlitsflugvél Landhelgisgæslunnar, lenti laust fyrir klukkan fjögur í gær á Gardermoen flugvelli í Osló og sótti tvö hylki sem eru mikilvæg við sjúkraflutninga COVID-19 smitaða. Annað hylkið fer á Landspítala og hitt á sjúkrahúsið á Akureyri. Viðbragðsaðilar á borð við Landhelgisgæsluna, slökkvilið og Mýflug geta nýtt sér hylkin ef flytja þarf smitaða á sjúkrahús. Hylkjunum er ætlað að auðvelda sjúkraflutninga vegna COVID-19 og draga úr smithættu.

Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra óskaði eftir því við Landhelgisgæsluna að áhöfnin á TF-SIF myndi annast flutninginn á hylkjunum frá Noregi til Íslands. TF-SIF tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli í hádeginu og er væntanleg aftur til landsins í kvöld.

Georg Kr. Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir gott að Landhelgisgæslan geti lagt hönd á plóg við að koma búnaðinum til landsins. „Það er gott að Landhelgisgæslan geti orðið að liði og nýtt TF-SIF til þessa verkefnis. Ferðin til Osló undirstrikar mikilvægi þess að þjóðin eigi flugvél sem getur nýst þegar flugsamgöngur liggja að mestu niðri og þörf er á að koma neyðarbúnaði hratt og örugglega til landsins. “

HylkiHylkin sem TF-SIF sótti til Noregs líta svona út.Ahofn_1585934286093Hluti áhafnarinnar á TF-SIF á Gardermoen flugvelli.