Neytendasamtökin hafa ítrekað á undanförnum misserum bent sparisjóðsstjóra Sparisjóðs Strandamanna á að ólögleg smálánafyrirtæki þrifist í skjóli sjóðsins. Þar sem sparisjóðurinn veitti innheimtufyrirtækinu Almennri innheimtu ehf. aðgang að greiðslumiðlunarkerfi bankanna. Þá börðust Neytendasamtökin einnig við Creditinfo sem setti viðskiptamenn smálánafyrirtækja sem réðu ekki við að greiða okurvexti, á vanskilaskrá en Creditinfo er eina félagið á Íslandi sem heldur úti vanskilaskrá, ólíkt því sem gerist í öðrum löndum. Þá reyndi viðskiptaráðherra að setja lög á Alþingi til að stoppa starfsemi smálánafyrirtækja en þau virkuðu ekki. Allt þetta ferli hefur tekið óra tíma og hefur Sparisjóðurinn sent frá sér neðangreinda yfirlýsingu; 

Stjórn Sparisjóðs Strandamanna hefur í nokkurn tíma verið með til skoðunar viðskiptasambönd við þá viðskiptavini sem koma á einhvern hátt að smálánastarfsemi. Stjórnin hefur ákveðið að innheimta og önnur umsýsla slíkra lána verði ekki heimiluð í gegnum innheimtukerfi og tengingar í nafni Sparisjóðs Strandamanna og hefur gripið til viðeigandi ráðstafana til að svo megi verða, meðal annars með uppsögn á viðskiptasamböndum.

Jafnframt er vakin athygli á því að útgreiðsla smálána hefur aldrei verið heimil í gegnum Sparisjóðinn, hvorki í gegnum bankareikninga eða öpp með tengingar við Sparisjóðinn. Sparisjóður Strandamanna var stofnaður 1891, Sjóðurinn hefur alla tíð eða í tæp 130 ár sýnt samfélagslega ábyrgð og hyggst gera það hér eftir sem hingað til.

Neytendasamtökin vöktu ítrekað athygli á málinu: Sparisjóður Strandamanna skýlir smálánafyrirtækjum

Almenn innheimta ehf. hefur þann eina starfa að innheimta ólögleg smálán í gegnum reikning Sparisjóðs Strandamanna (bankanúmer 1161). Hefur Almenn innheimta, eigandi þess og lögmaður ítrekað hlotið ítrekaðar aðfinnslur og áminningar lögmannafélagsins (sjá t.d. hér ) vegna þessarar innheimtustarfsemi. Eftir ábendingar Neytendasamtakanna hafa stærri fjármálafyrirtæki úthýst innheimtufyrirtækinu og vita samtökin ekki til þess að nokkurt íslenskt fyrirtæki eigi í dag viðskipti við Almenna innheimtu eða hin alræmdu smálánafyrirtæki.

Neytendasamtökin hafa nú kallað eftir svörum frá nýrri stjórn Sparisjóðs Strandamanna um það hvort stjórnin muni sýna samfélagslega ábyrgð í verki og segja upp viðskiptum við Almenna innheimtu ehf. eða hvort Sparisjóður Strandamanna muni áfram leggja sitt að mörkum til að tryggja að skipulögð brotastarfsemi smálánafyrirtækja fái viðgengist hér á landi.“

Stjórn Sparisjóðs Strandamanna hefur nú tekið á málinu eins og kemur fram í yfirlýsingu þeirra hér að ofan.