Næturvakt lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

Laust fyrir klukkan sjö í gærkvöldi kom lögregla ölvuðum manni í austurborginni til aðstoðar. Maðurinn brást illa við aðstoð lögreglu og hrækti hann í andlit lögregluþjóns og sparkaði í annan. Hann var því handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna ástands hans og hegðunar. Maðurinn lét mjög ófriðlega í vörslu lögreglu og tókst honum að hrækja í andlit tveggja lögregluþjóna til viðbótar.

Brotist var inn í grunnskóla í austurborginni um áttaleytið. Lögregla fór að vettvangi og er málið í rannsókn.

Maður á þrítugsaldri var handtekinn í vesturborginni eftir að hann hafði gert þrjár ránstilraunir vopnaður hnífi. Maðurinn veitti handtökunni ekki mótspyrnu og hlýddi skipunum lögreglu. Engum varð líkamlegt mein af brotahrinu mannsins né handtöku lögreglu. Maðurinn var vistaður í fangageymslum í þágu rannsóknar málsins.

Stuttu síðar barst lögreglu tilkynning um heimilisofbeldi í Hafnarfirði. Lögregla fór rakleiðis að vettvangi og skakkaði leikinn. Málið er nú í rannsókn.

Um klukkan fimm í morgun kom Lögregla konu til aðstoðar á Seltjarnarnesi. Konan hafði læst sig inni á baðherbergi og sat þar föst. Lögregla skreið inn um glugga að baðherbergi hennar, og tóks að lyfta henni upp og út um gluggan. Konan var frelsinu fegin, sér í lagi þar sem hún komst tímanlega í flug.

Lögregla sinnti einnig fjölda útkalla um allt höfuðborgarsvæðið vegna samkvæmishávaða. Einnig voru fjórir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, og tveir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis.