Vér mótmælum öll!
Yfirlýsing frá Stjórnarskrárfélaginu þann 17. júní 2020

Í dag minnumst við sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar og Jóns Sigurðssonar, eins helsta baráttumanns okkar fyrir sjálfstæði landsins. Jón barðist meðal annars fyrir því að Ísland fengi sína eigin stjórnarskrá en sú stjórnarskrá sem Kristján 9. færði þjóðinni árið 1874 í tilefni 1000 ára byggðar í landinu var Jóni vonbrigði.

Nú, 146 árum síðar, búum við samt enn við þessa sömu dönsku stjórnarskrá í örlítið breyttri mynd. Það gerum við þrátt fyrir rækilega yfirlýst loforð allra stjórnmálaflokka á Alþingi um að það yrði forgangsverkefni eftir stofnun lýðveldisins 1944 að Íslendingar semdu sér sína eigin stjórnarskrá. Það gerum við þó svo að afgerandi meirihluti kjósenda hafi samþykkt í lögmætri þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2012 að tillögur sem samdar voru í víðtæku lýðræðislegu ferli skyldu verða grundvöllur nýrrar íslenskrar stjórnarskrár.

Þrátt fyrir sjálfsákvörðunarrétt þjóðarinnar og skýrt ákall um nýja stjórnarskrá hafa valdamikil öfl í samfélaginu staðið í vegi fyrir því að lýðræðislegur vilji kjósenda næði fram að ganga. Þessum valdamiklu öflum hefur tekist að hindra að eignaréttur þjóðarinnar á náttúruauðlindum landsins sé tryggður og að fullt gjald komi fyrir tímabundin afnot af auðlindunum.

Þessum valdamiklu öflum hefur tekist að hindra að tiltekinn hluti þjóðarinnar geti milliliðalaust krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um mikilvæga löggjöf eða geti látið leggja fram þingmál á Alþingi. Þeim hefur tekist að koma í veg fyrir að atkvæði kjósenda vegi jafnt og að hægt sé að kjósa alþingismenn persónukjöri. Þeim hefur tekist að koma í veg fyrir að dómarar séu skipaðir á faglegum forsendum og að traust skapist um störf dómstóla. Þeim hefur tekist að koma í veg fyrir að hlutverk forseta Íslands sé skýrt í stjórnarskránni og að vald hans sé ekki háð geðþótta.

Ofríki þessara valdamiklu afla er viðhaldið í skjóli úreltrar stjórnarskrár. Baráttunni fyrir fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar er því ekki lokið enn.

Stjórnarskrármálinu er einfalt að ljúka ef unnið er af heilindum á Alþingi. Þjóðin er stjórnarskrárgjafinn, ekki stjórnmálaflokkar eða umsvifamikil sérhagsmunasamtök. Landsmenn verða líka að geta treyst á að fjölmiðlar fylgi málinu eftir og að þjóðkjörinn forseti taki einarðlega afstöðu með lýðræðislegum vilja þjóðarinnar gegn ofríki fámennra valdaafla. Nú í aðdraganda forsetakosninga er brýnt að forsetaframbjóðendur svari því með skýrum hætti hvort þeir vilji standa með lýðræðislegum niðurstöðum úr lögmætum kosningum eður ei.

Hvar er ný stjórnarskrá? – Hver er forsætisráðherra Íslands?