Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, lagði áherslu á mikilvægi þess að mæta nýju ári með bjartsýni og æðruleysi í nýársprédikun sinni sem hún flutti í Dómkirkjunni í dag.
„Við skulum líta björtum augum til framtíðar því kristin trú boðar framfarir, jákvæðan hugsunarhátt og endalaausa von sem byggist á fylgdinni við barnið sem fæddist í Betlehem. Þess vegna skulum við vona á hann, biðja um styrk til að takast á við hvers konar vanda og biðja um kraft til að fylgja góðum hugmyndum eftir. Kristið fólk veit að það er ekki eitt í lífsbaráttunni.”
Þrátt fyrir mikilvægi þess að ganga inn í framtíðina með jákvæðni að leiðarljósi þá benti hún á þær mörgu áskoranir sem mannfólkið stendur frammi fyrir. Eftirlitssamfélagið sem hún las um í verkum George Orwell sem unglingur er komið óþægilega nálægt raunveruleikanum og aðgerðir að varðveita umhverfið mega ekki bíða lengur.
„Lífið hér á jörð á í vök að verjast vegna lifnaðarhátta okkar mannfólksins. Vísindamenn hafa frætt okkur um afleiðingarnar og nú er komið að siðferðilegum þætti þessa máls. Við erum hvött til aðgerða, hvött til að hlúa að jörðinni sem þjáist og stynur undan lífsmáta okkar.”
Einnig notaði hún tilefnið til að óska Úkraínumönnum til hamingju með nýstofnaða þjóðkirkju en tengsl þeirra við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna hafa verið viðkvæm síðan deilurnar um Krímskaga hófust árið 2014.
„Þetta er liður í sjálfstæðisbaráttu Úkraínu og af því tilefni sagði Petro Poroshenko forseti Úkraínu að sjálfstæði kirkjunnar væri sigur hins góða og ljós í myrkrinu.”
Prédikunin í heild sinni :
Enn á ný höfum við litið nýtt ártal. Víða um land var kveikt á blysum í fjallshlíðum eða öðrum áberandi stöðum með ártalinu 2018 sem breyttist svo í 2019 þegar klukkan sló 12 á miðnætti í gærkveldi. Á mörgum stöðum hringja líka kirkjuklukkurnar á mærum tveggja ára og minna á að árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka.
Það fylgir því viss tregi að kveðja ár en að sama skapi býr viss eftirvænting í huga og hjarta vegna hins nýja árs og þess sem það færir. Í huga margra er fyrirheit um betra og gjöfulla líf en hvað boðar nýjárs blessuð sól er enn hulið þó við vonum og biðjum að árið verði gott og gefandi.
Áramót eru ekki tímamót. Það eina sem breytist er að við þurfum að venja okkur á að skrifa nýtt ártal og auðvitað að þreyja þorrann og góuna sem var ekki alltaf auðvelt hér áður fyrr þegar húsakynni voru köld og tæknin lítil sem engin heldur þurfti að reiða sig á verksvitið og fyrirhyggjuna.
Lífstaktur sveitarinnar þar sem verkin tilheyrðu árstíðunum er ekki sá lífstaktur sem slær í daglegu lífi okkar flestra. Hraði lífsins er óstöðvandi þar til eitthvað utanaðkomandi hægir á honum eða stoppar hann.
Guðspjall þessa fyrsta dags ársins er aðeins 3 vers úr Jóhannesarguðspjalli. Jesús hafði gert sitt fyrsta kraftaverk, að breyta vatni í vín í brúðkaupsveislu einni. Hann hafði líka hrundið við borðum víxlaranna sem skiptu peningum þeirra sem komu í musterið svo þau gætu greitt fyrir fórnardýrið með réttri mynt. Fólk undraðist verk þessa manns og sumir fóru að trúa á hann. Það var ekki vel liðið af ráðamönnum þess tíma því þá eins og nú vildu menn ekki missa völd sín. Frá því segir guðspjallamaðurinn einnig í riti sínu með þessum orðum: „Æðstu prestarnir og farísearnir kölluðu þá saman ráðið og sögðu: „Hvað eigum við að gera? Þessi maður gerir mörg tákn. Ef við leyfum honum að halda svo áfram munu allir trúa á hann og þá koma Rómverjar og taka bæði helgidóm okkar og þjóð.“
Biblían geymir visku kynslóðanna. Visku sem þær hafa safnað saman í það rit sem við köllum í dag Biblíuna. Biblían er safn af bókmenntaverkum, með hreint mögnuðu innihaldi, smásögum, ljóðum, heilræðum, mannkynssögu, sögu þjóðar, sögu einstaklinga. Þessar sögur hafa gagnast vel í lífsins ólgusjó og ættu enn að vera hluti af námsefni hvers barns eins og áður fyrr.
Margir eru í leshring eða bókaklúbbi. Hvernig væri að lesa einhverja bóka Biblíunnar í slíkum félagsskap. Umræðurnar yrðu örugglega fjörugar. Lestur á bókum Biblíunnar getur síðan opnað manni heim sem frelsar, líknar og veitir lausn, þegar við nálgumst ritin með augum trúarinnar og lifum í samræmi við þá trúarreynslu, sem lesturinn getur veitt.
Manneðlið er samt við sig hvort heldur árið er 2 eða 2000. Í menntaskóla las ég bókina 1984 eftir George Orwell. Þar er framtíðarsýnin ógnvænleg þegar fylgst er með hverju fótmáli borgaranna. Ekki grunaði okkur unglingana fyrir vestan að slíkt tilheyrði raunveruleikanum eftir nokkra áratugi. Nú er búið að setja reglur um persónuvernd á sama tíma og allt á að vera upp á borði eins og það er orðað.
Margt má betur fara í heimi hér. Enn eru þjófar að verki sem taka ófrjálsri hendi það sem þeir telja verðmætt á heimilum manna. Fólk býr við fátækt hér á landi og húsnæðisekla er fyrir hendi. Menn fela staðreyndir til að tapa ekki fjármunum eins og fyrirtækið Johnson og Johnson sem framleiddi asbestmengað púður sem foreldrar ungbarna víða um heim hafa í áratugi notað á börnin sín. Enn eru þúsundir á flótta í heiminum og bíða úrskurðar um framtíð sína. Þar gilda reglur sem oft eru ekki byggðar á miskunnsemi. Ungt fólk er í heljargreipum fíknar og ástvinir þeirra vanmáttugir. Minnumst þess að hvert líf er mikils virði og hefur tilgang.
Fréttir af hryðjuverkum og skotárásum berast einnig. Mikið er talað um að byggja þurfi upp og styrkja innviðina og ekki veitir af að bæta samgöngur og fjarskipti til að byggð haldist í landinu öllu. Það er verk að vinna víða sem bæta mun líf fólks og efla samfélagskennd.
Þjóðkirkjan er hluti af stærri heild kristinna kirkna víðs vegar um heiminn. Eftir síðari heimsstyrjöldina áttuðu kristnir menn sig á þörfinni fyrir að standa saman. Árið 2017 hélt Lútherska heimssambandið upp á 70 ára afmæli sitt og minntist einnig 500 ára afmælis siðbótarinnar. Þau hátíðarhöld hófust formlega með sameiginlegri bænastund Frans páfa og fulltrúum lúthersku kirkjunnar. Sameinuð í bæn í fyrsta skipti í 500 ár. Í lútherska heimssambandinu eru 148 kirkjur í 99 löndum og er meðlimafjöldinn rúmlega 75 milljónir. Á síðasta ári var þess minnst að 70 ár voru frá stofnun Alkirkjuráðsins. Árið 2017 heimsótti græni patríarkinn, yfirmaður orþódoxu kirkjunnar landið í tengslum við ráðstefnu um réttlátan frið við jörðina. Nú hefur hann veitt einni af kirkjum sínum, rétttrúnaðarkirkjunni í Úkraínu sjálfstæði frá rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni. Þetta er liður í sjálfstæðisbaráttu Úkraínu og af því tilefni sagði Petro Poroshenko forseti Úkraínu að sjálfstæði kirkjunnar væri sigur hins góða og ljós í myrkrinu.
Þjóðkirkjan er til eins og aðrar kristnar kirkjur vegna þess erindis sem hún flytur. Fagnaðarerindi Jesú Krists byggir á kærleika til Guðs og manna og allrar sköpunarinnar. Lífið hér á jörð á í vök að verjast vegna lifnaðarhátta okkar mannfólksins. Vísindamenn hafa frætt okkur um afleiðingarnar og nú er komið að siðferðilegum þætti þessa máls. Við erum hvött til aðgerða, hvött til að hlúa að jörðinni sem þjáist og stynur undan lífsmáta okkar.
Siðferðileg mál koma oft upp í opinberri umræðu. Rætt hefur verið um það hvernig við tölum við hvert annað og um hvert annað. Alþingismenn glíma við siðferðileg álitamál þegar setja þarf lög eða breyta þarf lögum eins og til dæmis þegar fjallað er um líf og lífslok. Það er þörf á að allir vandi sig, hlusti á og virði ólík sjónarmið og að almenningur leggi sitt að mörkum og taki þátt í umræðunni.
Þjóðkirkjan er með þjónustunet um allt land og eru þjónar kirkjunnar til taks þegar á þarf að halda. Á ferðum mínum í sóknir landsins mæti ég hinni eiginlegu kirkju sem er fólkið í kirkjunni. Fólkið sem unnir sinni sóknarkirkju og er þakklátt fyrir þá þjónustu sem kirkjan veitir. Sú kirkja mætti oftar vera í kastljósi miðlanna. Sú kirkja biður og þakkar, fræðir og boðar, veitir sálgæslu og stuðning og gengur veginn fram með þeim sem þess óska. Sú kirkja boðar trú, von og kærleika. Þjóðkirkjan er ekki eitt af mörgum trúfélögum í landinu. Hún nýtur sérstöðu sem þjóðkirkja og því fylgja þjónustuskyldur sem trú- og lífsskoðunarfélög bera ekki.
Við hefjum gönguna inn í nýtt ár með von í brjósti. Von sem felur í sér umbreytandi og endurnýjandi kraft. Vonina sem býr í kristinni trú sem getur breytt sýn okkar á líðandi stund og framtíð samfélagsins. Barnið sem við fögnum nú á jólum er frelsarinn því hann frelsar frá því sem meiðir og deyðir til þess sem gleður og nærir. Hann lætur okkur líta á lífið með augum trúarinnar. Hvað þýðir það? Það mætti orða það þannig að sjóndöpur manneskja sér óskýrt, en ef hún lætur gleraugu upp sem miðuð eru við sjón hennar, þá sér hún skýrt og tekur jafnvel eftir því sem augun sáu ekki áður. Þannig lætur trúin okkur sjá allt í nýju ljósi, með nýjum augum og það gerist þegar við breytum hugarfari okkar og tökum tilliti til annarra og hugsum út frá því að við erum ekki ein í heiminum. Það verður allt nýtt ef hugsunin breytist.
Við skulum líta björtum augum til framtíðar því kristin trú boðar framfarir, jákvæðan hugsunarhátt og endalausa von sem byggist á fylgdinni við barnið sem fæddist í Betlehem. Þess vegna skulum við vona á hann, biðja um styrk til að takast á við hvers konar vanda og biðja um kraft til að fylgja góðum hugmyndum eftir. Kristið fólk veit að það er ekki eitt í lífsbaráttunni. Yfir því vakir almáttugur Guð sem er tilbúinn til að gefa fleiri tækifæri, tilbúinn til að fyrirgefa og tilbúinn til að hjálpa okkur að berjast trúarinnar góðu baráttu.
Prófessor Þórir Kr. Þórðarson heitinn skrifaði grein um lífsgildið og börnin og sagði m.a.: „Kristinn siður hefur haft mótandi áhrif á einstaklinga og þjóðir allt frá upphafi vega kristinnar sögu. Þegar kristinn siður ruddi sér braut til áhrifa meðal þróttmikilla, heiðinna þjóða norðurálfu, mýkti hann skap manna, lægði ofstopa, dró úr hefnigirni og gæddi allt líf þjóðanna siðfágun.
Vér Íslendingar getum séð átökin milli árásarhneigðar og ofstopa annars vegar og mildi kristins siðar og viðhorfa hins vegar í Sturlungu. Og raunar tvinnast þetta tvennt í sálarlífi allra manna – og barna – sem á annað borð eru „eðlilegir“ einstaklingar: krafturinn, árásarhneigð honum samfara, og þörfin fyrir ástúð og kærleika.“
Það urðu tímamót í lífi þjóðarinnar þegar Þorgeir Ljósvetningagoði kom undan feldinum og tilkynnti ákvörðun sína um að hér á landi skyldu ríkja ein lög og einn siður. Þessi siður, hinn kristni hefur mótað samfélagið alla tíð. Umræða nútímans um kirkju og kristni bendir til nokkurs áhuga á umræðuefninu. Sem betur fer ríkir trúfrelsi í landinu og hægt að skrá trú- og lífsskoðunarfélög hjá hinu opinbera. Viss skilyrði verður að uppfylla samkvæmt lögum til að það sé hægt. Þess vegna vekur það undrun að félag sem ekki virðist hafa uppfyllt skilyrðin hafi verið skráð og þar með öðlast réttindi sem lögin veita.
Það urðu líka tímamót í lífi þjóðarinnar þegar Ísland varð fullvalda ríki árið 1918. Við minntumst aldarafmælis þess árið 2018 með ýmsum hætti og gerðum okkur betri grein fyrir því hvað það þýðir að vera fullvalda þjóð.
Ábyrgð fylgir öllum gjörðum og byrðar geta einnig verið þungar. „Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld“ segir Jesús. Það er gott að vita það að byrðum hins nýja árs sem vonandi verða ekki þungar megum við varpa frá okkur til hans sem kom í heiminn til að létta okkur lífið og leyfa okkur að treysta á sig í blíðu og stríðu. Í trausti þess göngum við inn í hið nýja ár með þakklæti í huga og von í brjóti.
Ég þakka samstarfsfólki mínu hér í Dómkirkjunni og annarsstaðar fyrir samfélagið á árinu sem var að kveðja og bið Guð að blessa ykkur og allt ykkar.
„Í hendi Guðs er hver ein tíð, í hendi Guðs er allt vort stríð, hið minnsta happ, hið mesta fár, hið mikla djúp, hið litla tár“ orti sr. Matthías forðum.
Við þökkum fyrir árið 2018 og biðjum þess að á nýju ári megum við ganga í ljósi Guðs svo við berum endurskin þess. Við biðjum Guð að blessa okkur nýtt ár og gefa að nafn hans verði yfirskrift lífs okkar.
Gleðilegt ár í Jesú nafni.