Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst á tíunda tímanum tilkynning um eld í klæðningu fjölbýlishúss í Eddufelli í Breiðholti. Allt tiltækt slökkvilið var sent á staðinn og náði fljótt tökum á eldinum. Húsið er samtals fjórar hæðir og allar íbúðir voru strax rýmdar í öryggisskyni.
Samkvæmt upplýsingum slökkviliðsins kom eldurinn upp í klæðningu á fyrstu hæð hússins og náði hann að breiðast út og á aðrar hæðir.
Fjórir dælubílar og tveir körfubílar fóru á vettvang ásamt lögreglu og um klukkan tíu var búið að slökkva eldinn en þá þurfti að rífa klæðningu af húsinu til að athuga með hvort eldurinn hefði borist þangað. Um klukkan hálf ellefu var slökkvistarfi að ljúka á vettvangi.