Norski fréttaskýringaþátturinn Brennpunkt hefur flett ofan af umfangsmiklu smygli Salmar, sem er móðurfélag Arnarlax, á eldislaxi til Kína. Hægt er að horfa á þáttinn með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.
Í mars 2018 var gerð leit að smygluðum laxi. Tollverðir fóru þá í frystihús og opnuðu nokkra kassa sem reyndust innihalda lax. Samkvæmt fréttum í kínverska sjónvarpinu var lax að verðmæti 700 milljónir norskar króna eða rúmir tíu milljarðar íslenskra króna haldlagður á landamærum Víetnam og Kína þennan dag. Rúmum fjórum mánuðum síðar eða í ágúst, eru 17 manns handteknir. Höfuðpaurinn fékk dóm upp á 14 ára fangelsi. Að þessu sinni var einnig um að ræða smygl á norskum laxi.
Icelandic Wildlife Fund vekur athygli á málinu á síðu sinni. ,,Þar kemur meðal annars fram að norsk stjórnvöld virðast hafa verið meðvituð um þessi lögbrot og ákveðið að líta fram hjá þeim. Stjórnmálafólk og eftirlitsstofnanir eru víða furðu meðvirkar með þessum skaðlega iðnaði, sem reyndar alls staðar beitir svipuðum aðferðum þar sem hann kemur sér fyrir: Vefur sig inn í pólitíkina með því að ráða í vinnu starfandi stjórnmálamenn eða fólk sem er nýhætt í stjórnmálum.“ Segir m.a. á síðu Icelandic Wildlife Fund.