Fréttatíminn greindi frá því árla morguns að Justin Bieber hefði komið til landsins og hefði skipulagt veiðiferð í sjóbirting þar sem að veiðitímabilið hófst í dag
Það er að sjálfsögðu ekki rétt, þar sem að um var að ræða fyrsta apríl gabb. Fréttin vakti mikla athygli og er næst mest lesna fréttin í dag og enn er fólk að lesa. Við biðjum lesendur að vera ekki mjög sára, sem að létu glepjast á þessari haugalýgi um veiðiferð Justin Bieber á Íslandi, svona í tilefni dagsins. Þökkum jafnframt Gunnari Bender fyrir að hafa tekið þátt í gríninu en hann hefur vart getað varist ágangi og símtölum í allan dag.
Fréttin hefur verið uppfærð kl.22.25
Þá greindi kanadíski tónlistarmaðurinn Justin Bieber frá því að hann ætlar að taka sér frí frá tónlistinni og einbeita sér að andlegri heilsu sinni en frá því var greint á vef RÚV fyrir viku síðan. Hann sagði að bæði aðdáendur og sig sjálfan eiga betra skilið en frammistöðu hans á síðasta tónleikaferðalagi.
Þeir sem að þekkja til tónlistarmannsins segja hann vera mjög færan veiðimann en hann slakar best á úti í náttúrunni og var m.a. duglegur að ferðast um allt land síðast þegar að hann kom til Íslands.
Það hefur verið mikil leynd yfir komu Bieber til landsins en skv. áreiðanlegum heimildum Fréttatímans er það einn helsti veiðileyfasali landsins sem að skipulagði allt ferðalagið og leigði eina bestu ánna hér á landi, undir tónlistarmanninn og hans fólk. Þá er vitað að hann var búinn að biðja um að sér yrði ekið í ísbúðina Huppu á Selfossi um leið og hún opnar á morgun en hann er mikill aðdáandi hennar og segir að íslenskur ís sé í miklu uppáhaldi hjá sér.
Einn helsti veiðifréttamaður landsins til áratuga, Gunnar Bender, samþykkti að veita Fréttatímanum viðtal en það var búið að fréttast að hann vissi allt um málið. Hann féllst á að afhenda okkur myndir af Bieber þegar að tekið var á móti honum á Keflavíkurflugvelli. Heyrst hefur að Bieber dvelji eins og er á hóteli á Suðurlandi og hefji svo veiðar á morgun en ekki hafa fengist nákvæmari upplýsingar en það.
Við mæltum okkur mót við Gunnar Bender við Meðalfellsvatn, en þar var hann þögull sem gröfin, þegar að hann var spurður um veiðiferðina. En ræddi þess í stað um veiðiþættina sína, Veiðin með Gunnari Bender, sem að hann var með á Hringbraut og minntist þess þegar að hann og myndatökumenn fóru niður um ís þegar að þeir voru að kvikmynda dorgveiði í vetur og nefndi að jafnvel væri von á fleiri þáttum. Það er því ljóst á öllu að mikil leynd er yfir ferðum Bieber hér á landi og ekki hægt að fá nákvæmar upplýsingar um það hvar hann dvelur.
https://www.facebook.com/mariagunnars/videos/10219868657293283/