Gakktu í bæinn á föstudagskvöld í miðbæ Hafnarfjarðar
Listamenn, hönnuðir og handverksfólk í miðbæ Hafnarfjarðar opnar vinnustofur sínar fyrir gestum og gangandi á föstudagskvöld og söfn og verslanir verða með opið fram á kvöld. Kraftur og gróska í listalífinu í Hafnarfirði hefur endurspeglast í viðburðinum Gakktu í bæinn sem að þessu sinni fer fram föstudaginn 2. júní frá kl. 18-21. Opið verður í vinnustofum listamanna allt frá Fornubúðum, söfnum og verslunum við Strandgötu og að Byggðasafni Hafnarfjarðar við Vesturgötu.
Opið hús í Íshúsi Hafnarfjarðar og Lífsgæðasetri St.Jó
Meðal annars verður opið hús hjá Íshúsi Hafnarfjarðar þar sem 30 einyrkjar og minni fyrirtæki í skapandi greinum hafa komið sér fyrir á verkstæðum og vinnustofum. Flóran er afar fjölbreytt og meðal annars er í húsinu stunduð keramik hönnun, myndlist, vöruhönnun, ritlist, tréskipasmíði og gullsmíði. Þá verður opið hús í Lífsgæðasetri St. Jó að Suðurgötu 41. Á St. Jó starfar hópur fagfólks og samtaka sem vinna að því að auka lífsgæði fólks og boðið upp á mjög svo fjölbreytta þjónustu. Má þar nefna ýmsa ráðgjöf og samtalsmeðferð, fræðslu, nudd, heilun, dáleiðslu, ýmislegt tengt meðgöngu heilsuvernd, og sjúkraþjálfun, auk þess sem að Alzheimersamtökin, Parkinson og Sorgarsamtökin styrkja okkur með sinni fjölbreyttu og mikilvægu starfsemi.
Skyggnst á bak við tjöldin í Hafnarborg
Í Hafnarborg verður gestum boðið að skyggnast á bak við tjöldin í safninu meðan unnið er að uppsetningu nýrra sýninga, sem opnaðar verða laugardaginn 10. júní kl. 14: Á hafi kyrrðarinnar eftir Hildi Ásgeirsdóttur Jónsson og Hikandi lína eftir Elísabetu Brynhildardóttur. Á Bókasafni Hafnarfjarðar verða smiðjur, listaverkasammálun, tónlistarhorn og fleira skemmtilegt fyrir gesti og gangandi og á Byggðasafni Hafnarfjarðar er hægt að skoða glænýja þemasýningu um lögregluna í Hafnarfirði. Þá verða fjölmargar verslanir við Strandgötu með opið fram á kvöld en þar er hægt að nálgast handverk og hönnun hafnfirskra listamanna.
Sjá nánar á https://hafnarfjordur.is/vidburdur/gakktu-i-baeinn-2023/