,,Og þá er aðeins eftir að meðhöndla sjávarútveginn með sama hætti. Og því skyldi honum hlíft eftir önnur afrek?“
Styrmir Gunnarsson skrifar mjög áhugaverða grein á vef sinn, þar sem að hann bendir á að óeðlilegt sé að undanskilja veiðiheimildir á Íslandi undan kvótakerfi ESB. Hví ættu auðlindir hafsins vera undanþegnar boðvaldi ESB? Íslenska ríkið þarf þá væntanlega að innkalla allar veiðiheimildir sem þjóðin á, og bjóða þær út á EES svæðinu þar sem að íslenska ríkið fengi 30 sinnum hærri veiðigjöld en íslenskar útgerðir eru að greiða. En Vinstri grænir og Sjálfstæðisflokkurinn sömdu um íslensku veiðigjöldin sem er afnotagjald af auðlindum þjóðarinnar, til innlendra útgerðarmanna og lýstu yfir mikilli ánægju með þau. Sá samningur var einn af fyrstu verkum núverandi ríkisstjórnar.
,,Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag er kafli, sem ber fyrirsögnina: Af hverju í ósköpunum? Þar segir:
„Á sama tíma er „kerfið“ sem í raun stjórnar Íslandi í krafti óvenjulega veikrar stjórnmálastéttar að færa landið sífellt nær inngöngu í ESB, en svikist var um að afturkalla aðildarumsókn með réttmætum og sjálfsögðum hætti. Þvert ofan í allt sem sagt var við ákvörðun um inngöngu í Evrópska efnahagssvæðið hafa íslenzk yfirvöld þegar þverbrotið öll loforð, sem þau gáfu um að virða umhverfi íslenzks landbúnaðar og galopna hann ekki fyrir ESB. Sú braut hefur verið opnuð án þess að þjóðin hafi verið spurð.
Nú er verið með skýlausu broti á íslenzku stjórnarskránni að færa eina meginauðlind landsins, einstæða orku þess, undir endanlegt „boðvald ESB“ eins og formaður Sjálfstæðisflokksins orðaði það á Alþingi áður en hann snerist eða var snúið um heilan hring.
Og þá er aðeins eftir að meðhöndla sjávarútveginn með sama hætti. Og því skyldi honum hlíft eftir önnur afrek? Og þar með er hægt að draga umsóknina vondu óafturkallaða upp úr skúffunum enda þá orðið formsatriði eitt að klára hana.“
Þetta er svört framtíðarspá, en hún er því miður raunsæ og kallar á aðgerðir bæði innan flokka og utan og er þá átt við núverandi stjórnarflokka, sem allir hafa verið andvígir aðild að ESB ef marka má yfirlýstar stefnuyfirlýsingar þeirra.
Fari fram sem horfir og Alþingi samþykki orkupakkann eftir helgi verður næsta barátta að koma í veg fyrir að þessi raunsæjaframtíðarspá verði að veruleika. Sú barátta verður hin harðasta til þessa.
Nýjar átakalínur að myndast í íslenzkum stjórnmálum
Verði orkupakkinn samþykktur á Alþingi eftir helgi verður grundvöllur lagður að nýjum átakalínum í stjórnmálum okkar, sem geta gjörbreytt hinu pólitíska landslagi. Útlínur þeirra hafa verið til staðar um nokkurt skeið en með slíkri ákvörðun Alþingis munu þær skerpast mjög. Þá mun afstaða til flokka og einstaklinga byggjast á því, hvort þeir eru tilbúnir til að standa vörð um sjálfstæði Íslands eða hvort þeir fylla þann hóp, sem í raun er að segja, að við séu betur komin undir pilsfaldi annarra þjóða.
Áþekkar átakalínur höfðu myndast í aðdraganda lýðveldisstofnunar 1944, þegar jafnaðarmenn voru tregir til að samþykkja stofnun lýðveldis og höfðu verið frá því snemma á 20. öldinni. Um það má lesa í sögu Alþýðuflokksins í 100 ár eftir Guðjón Friðriksson, sagnfræðing, sem út kom fyrir nokkrum árum og viðhorfum þeirra jafnaðarmanna, sem þannig hugsuðu má kynnast í bók, sem heitir Bannfærð sjónarmið eftir Hannibal Valdimarsson.
Þá stóð Sjálfstæðisflokkurinn heill og óskiptur að lýðveldisstofnun enda sækir flokkurinn nafn sitt til lokakafla sjálfstæðisbaráttunnar.
Fyrir nokkrum árum gekk hópur manna úr flokknum og stofnaði Viðreisn, sem hefur það á stefnuskrá sinni að Ísland leiti skjóls í Brussel.
Nú sýnir þingflokkur Sjálfstæðisflokksins tilhneigingar, sem stefna í svipaða átt.
Þá er svo komið að nýjar átakalínur eru að myndast í þeim flokki. “ Segir Styrmir Gunnarsson f.v. ritstjóri Morgunblaðsins.