Unnið er að uppfæra áætlun um loftgæði á vegum Umhverfisstofnunar og lúta breytingar að því að lagt verði til að sveitarfélög fái heimild til að leggja gjald á notkun nagladekkja. Þetta er þess meðal annars sem kemur fram í umfjöllun í Fréttablaðinu.
Ef áætlanir ganga eftir þarf að gera breytingu á umferðarlögum en Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun, segir í samtali við Fréttablaðið að til mikils sé að vinna þar sem breytingin myndi draga úr svifryki og sliti á götum.
Hlutfall negldra dekkja var talið í Reykjavík miðvikudaginn 9. mars. Hlutfallið skiptist þannig að 40% ökutækja var á negldum dekkjum og 60% var á öðrum dekkjum.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, segir að félagið ekki vera hlynnt skattlagningu á öryggi ökutækja. Hann segir sérstakan skatt á nagladekk vera aðför að öryggi.
FÍB hefur markvisst ekki verið hlynnt skattlagningu á öryggi ökutækja
„Félagið hefur markvisst ekki verið hlynnt skattlagningu á öryggi ökutækja. Á sama tíma höfum við í sjálfu sér hvatt fólk til þess að gera sína eigin þarfagreiningu en æskilegt er að sem flestir séu án nagla sem þurfa ekki að vera á nöglum. Það að setja sérstakan skatt á naglanotkun er eitthvað sem við teljum geta verið aðför að öryggi,“ segir Runólfur.
Tilgangurinn með gjaldtökunni er að draga úr notkun nagladekkja í þéttbýli, fyrst og fremst svo bæta megi loftgæði. Runólfur telur það æskilegra að upplýsa fólk um umhverfisleg áhrif af notkun nagladekkja frekar en að skattleggja notkun á nagladekkjum.
„Aukin meðvitund er um að notkun nagladekkja hafi neikvæð áhrif á slit gatna og umhverfið. Samdráttur hefur verið í notkun nagladekkja en fyrir nokkrum árum var mikill meirihluti á nagladekkjum. Þetta hefur breyst og ónegld dekk eru alltaf að verða betri og betri og orðinn ákjósanlegur kostur að taka ónegld vetrardekk. Öryggislega séð slær ekkert negldum vetrardekkjum við við vissar aðstæður en þær aðstæður eru mjög hverfandi í til dæmis þéttbýlinu á suðvesturhorninu,“ segir Runólfur Ólafsson..
Í viðtalinu við Þorstein í Fréttablaðinu kemur fram að gjaldið í Noregi nemur 20 þúsund krónum fyrir veturinn, miðað við fjögur nagladekk. Þess má geta að fyrir nokkrum árum var þessi umræða hávær í Svíþjóð. Sett var á laggirnar nefnd sem átti að finna leiðir til að bæta loftgæði í nokkrum borgum í Svíþjóð. Nefndin lagði til að mæla ekki með skatti á nagladekk. Sömu sögu er að segja frá Finnlandi. Annars staðar í Evrópu er nagladekkjanotkun lítil sem engin og víðast hvar bönnuð með öllu.
Haft er eftir Alexöndru Briem, formanni borgarráðs Reykjavíkuborgar, í Fréttablaðinuað henni litist mjög vel á þessa tillögu og vonar að hún gangi eftir. „Við höfum kallað eftir aðferðum til að draga úr notkun nagladekkja, sporna við svifryki og minnka slit á götum,“ bætir hún við.