Í kjölfar tveggja daga ráðherrafundar samráðsnefndar háttsettra embættismanna á Norðurlöndum um málefni flóttamanna (NSHF) í Kaupmannahöfn 30.-31. október 2023 sammæltust ráðherrarnir um þrjú framtaksverkefni til að styrkja og útvíkka norræna samvinnu í málefnum útlendinga á sviði endursendinga.
Fyrsta framtaksverkefnið lýtur að því að styrkja enduraðlögun í upprunaríkjum með auknu samstarfi norrænna sérfræðinga í þriðju ríkjum. Öðru verkefninu er ætlað að stuðla að samhæfðum norrænum brottflutningum í samstarfi við Landamærastofnun Evrópu (Frontex). Með þriðja verkefninu verður stutt við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (IOM) svo henni verði unnt að aðstoða farandsfólk í ólögmætri dvöl í Norður-Afríku við að komast til síns heima og enduraðlagast.
Norrænu ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi þess að Norðurlöndin samhæfi sín alþjóðlegu verndarkerfi og haldi áfram nánu samstarfi í málaflokknum. Löndin geta lært af reynslu hvors annars og þannig gætt að samnorrænum hagsmunum.
Sameiginleg fréttatilkynning nefndarinnar á ensku. (pdf)