Niðurstöður úr könnun Gallup fyrir Ferðamálastofu um rekstur ferðaþjónustunnar á liðnu sumri og hagnýtingu fyrirtækja á stuðningsaðgerðum stjórnvalda
Mikilvægt er að varpa ljósi á hvernig ferðaþjónustan brást við í þeim sérstöku aðstæðum sem hafa verið á tímum kórónuveirunnar. Ferðaþjónustan hefur orðið alvarlega fyrir barðinu á faraldrinum og samdráttur í tekjum verið gríðarlegur. Þrátt fyrir erfiða tíma hafa fyrirtæki í ferðaþjónustu reynt að hagnýta sér þau tækifæri sem hafa boðist. Íslendingar voru til að mynda duglegir að ferðast um eigið land í sumar.
Ferðamálastofa fékk Gallup til að gera ítarlega könnun meðal ferðaþjónustuaðila til að varpa skýrara ljósi á ferðasumarið 2020. Þá var spurt um hvernig aðgerðir stjórnvalda til stuðnings fyrirtækjunum hefði gagnast þeim og horfurnar framundan. Könnunin var byggð á stóru úrtaki svo draga mætti áreiðanlegar ályktanir af niðurstöðum. Áhersla var lögð á að fá fram niðurstöður fyrir einstaka landshluta.
Niðurstöður könnunar í heild:
https://www.ferdamalastofa.is/static/files/ferdamalastofa/Frettamyndir/2020/november/ferdamalastofa_heildarskyrsla.pdf
Hvernig gekk í sumar?
- Um 65% ferðaþjónustufyrirtækja voru með svipaða opnunartíma í sumar og í fyrra. Einungis um 5% voru með lokað í sumar.
- Um átta af hverjum tíu fyrirtækjum gripu til aðgerða til að laða að Íslendinga í sumar. Það var gert m.a. með því að taka á móti ferðagjöfinni (52%), lækka verð (48%), sérstökum tilboðum (45%) og að laga vöruframboð og þjónustu að þörfum Íslendinga.
- Að jafnaði var verð lækkað um 35% til að laða að Íslendinga. Gistiþjónusta lækkaði verð meira eða um 41%.
- Viðskiptavinum fækkaði hjá um 86% fyrirtækja í sumar frá því í fyrra. Velta lækkaði hjá um níu af hverjum tíu fyrirtækjum. Lækkun nam að jafnaði um 65% milli ára.
- Íslendingar voru að jafnaði 57% viðskiptavina ferðaþjónustunnar í sumar og var 54% veltu fyrirtækja að jafnaði tilkomin vegna þeirra. Til samanburðar voru Íslendingar að jafnaði 27% af viðskiptavinum sumarið 2019 og mátti rekja um 26% veltu fyrirtækja að jafnaði til þeirra.
- Íslendingar voru 56% viðskiptavina gistiþjónustu í sumar samanborið við 16% í fyrra. Um 80% viðskiptavina veitingahúsa voru Íslendingar en í fyrra 54%.
- Hjá tveimur af hverjum fimm fóru viðskipti sumarsins fram úr væntingum. Um fjórðungur taldi viðskiptin í samræmi við væntingar og um þriðjungur þau vera undir væntingum. Viðskiptin fóru einkum fram úr væntingum fyrirtækja á landsbyggðinni, aðallega veitingaþjónustu (80%).
- 23% fyrirtækja skiluðu EBITDA-framlegð sumarið 2020, 17% skiluðu engri framlegð og 61% voru með neikvæða framlegð.
Mótvægisaðgerðir og úrræði stjórnvalda
- Langflest fyrirtæki (94%) hafa gripið til mótvægisaðgerða til að laga sig að því viðskiptaumhverfi sem hefur skapast í kjölfar COVID-19. Aðgerðirnar hafa að mestu snúist um að:
- Fækka starfsfólki (76%)
- Nýta stuðningsaðgerðir stjórnvalda (68%)
- Minnka starfshlutfall starfsmanna (66%)
- Draga úr rekstrarkostnaði (65%)
- Tvö fyrirtæki af hverjum fimm hafa minnkað afkastagetu fyrirtækis eða tekið eignir úr notkun eða endursamið við lánadrottna og birgja. Þrjú fyrirtæki af hverjum tíu hafa síðan aukið lántöku og um fimmtungur selt eignir í eigu fyrirtækis.
- Álíka margir voru ánægðir og óánægðir með stuðningsaðgerðir stjórnvalda við ferðaþjónustuna frá því í vor og sumar í kjölfar COVID-19. Ríflega fjórðungur var hvorki ánægður né óánægður.
- Fyrirtæki með mesta veltu (+500 milljónir) voru ánægðari með stuðningsaðgerðir en þau sem voru með minni veltu.
- Þau fyrirtæki sem höfðu verið starfandi lengur en tíu ár voru ánægðari með aðgerðir en þau sem höfðu verið starfrækt skemur.
Hvað er framundan?
- Tæplega helmingur ferðaþjónustufyrirtækja (45%) hyggst hafa opið í vetur ef sóttvarnaraðgerðir leyfa og vera með svipaðan opnunartíma og síðastliðinn vetur.
- Fimmtungur ætlar að hafa lokað í vetur.
- Minnstu fyrirtækin eru líklegri til að vera með óbreyttan opnunartíma.
- Langflest (74%) fyrirtæki/starfsstöðvar ætla að reyna að ná fyrri styrk eins fljótt og auðið er eftir kórónuveirufaraldurinn.
- Um þriðjungur ætlar að fara hægt af stað til að koma til móts við þá eftirspurn sem er fyrir hendi.
- Aðeins 2% nefndu að þau ætluðu ekki að halda áfram rekstri.