Áætlað er að um 5.000-7.000 einstaklingar búi nú í óleyfisíbúðum (1500-2000 íbúðir), þ.e. í húsnæði sem skipulagt er undir atvinnustarfsemi en nýtt til íbúðar fyrir einstaklinga. Ástæður þess geta verið margþættar en skortur á leiguhúsnæði og há leiga er líkast til veigamesta skýringin. Þá eru dæmi um að starfsmannaleigur og atvinnurekendur komi starfsmönnum sínum fyrir í óleyfisbúsetu sem hafa jafnvel ekki raunverulegt val um búsetu.
Þá spilar jafnframt inn í að hluti erlends verkafólks sem dvelst tímabundið á landinu vegna vinnu kýs hreinlega að búa tímabundið í eins ódýru húsnæði og mögulegt er þar sem ekki eru gerðar sambærilegar kröfur til húsnæðisins af hálfu viðkomandi og ef um framtíðarbúsetu væri að ræða.
Þetta kemur fram í nýrri samantekt vinnuhóps sem skipaður var til að safna upplýsingum um fjölda óskráðra íbúða og leiðir til þess að fá eigendur óskráðra íbúða til að skrá þær opinberlega. Þessi skýrsla er hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð Lífskjarasamningana í apríl 2019 um umbætur í húsnæðismálum.