Lokað var fyrir umferð á Sandskeiði, Hellisheiði og Þrengsli fyrir hádegi vegna hálku. Hellisheiði var opnuð aftur um eittleytið. Lokað er fyrir umferð yfir Holtavörðuheiði vegna veðurs.
Hálkublettir eru á Reykjanesbraut og Vesturlandsvegi allt upp að Hvalfjarðargöngum. Hálka er á Mosfellsheiði og Kjósarskarði og flughált í Mosfellsdal og Grafningsvegi.
Gular viðvaranir tóku gildi á sunnan- og vestanverðu landinu fyrir hádegi og gilda fram að miðnætti.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Vegagerðinni, segir í viðtali við ríkisútvarpið að búist sé við öflugum éljum og með þeim dragi úr skyggni, sérstaklega á fjallvegum. „Og það eru þessar leiðir, bæði norður í land og vestur á firði, þar verður veðrið hvað verst og eins er versnandi veður yfir Hellisheiðina. Ég á von á því að hún opni aftur eftir hádegi þegar búið verður að hálkuverja og salta. Þar er síðan versnandi síðdegis og svo er Reykjanesbrautin á athugunarlista. Þar gengur á með dimmum éljum en að öðru leyti ekki svo slæmt ástand. Þetta stendur fram til kvöldsins og fram á nótt.“
Fólk sem íhugar lengri ferðir þarf virkilega að athuga áður að veðri og færð.