Ársreikningur Landsvirkjunar 2018 – Annað metár í orkuvinnslu og rekstrarafkomu
Helstu atriði ársreiknings
- Rekstrartekjur námu 533,9 milljónum USD (61,9 ma.kr.) og hækka um 50,8 milljónir USD frá 2017.1
- EBITDA nam 389,9 milljónum USD (45,2 ma.kr.). EBITDA hlutfall er 73,0% af tekjum, en var 71,5% árið áður.
- Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði nam 184,1 milljón USD (21,4 ma.kr.), en var 153,4 milljónir USD árið áður og hækkar því um 20,0% milli ára.
- Hagnaður ársins var 121,0 milljón USD (14,0 ma.kr.) en var 108,0 milljónir USD árið áður.
- Nettó skuldir voru í árslok 1.884,6 milljónir USD (218,6 ma.kr.) og lækkuðu um 158,0 milljónir USD á árinu 2018.
- Handbært fé frá rekstri nam 295,8 milljónum USD (34,3 ma.kr.), 6,4% hækkun frá 2017.
Hörður Arnarson, forstjóri:
„Árið 2018 var gott í rekstri Landsvirkjunar. Tekjur hækkuðu um 11% milli ára og hafa aldrei verið meiri, en þar munaði mestu um aukið selt magn og hækkandi álverð.
Átjánda aflstöð Landsvirkjunar, Búrfellsstöð II, var tekin í gagnið á árinu, auk þess sem annar áfangi þeirrar sautjándu, á Þeistareykjum, hóf rekstur. Raforkusalan jókst um 430 gígavattstundir frá fyrra ári og var um 14,8 teravattstundir.
Áfram bættist við hóp viðskiptavina stórnotenda hjá fyrirtækinu á árinu. Gerðir voru rafmagnssamningar við tvo aðila í gagnaversiðnaði; Advania Data Centers og Etix Everywhere Iceland. Hópur viðskiptavina er nú fjölbreyttari en nokkru sinni fyrr.
Eftir framkvæmdir síðustu ára, sem að mestu voru fjármagnaðar með sjóðstreymi, halda nettó skuldir nú áfram að lækka og lækkuðu þær á á síðasta ári um 158 milljónir Bandaríkjadollara. Hlutfall nettó skulda á móti EBITDA-rekstrarhagnaði er nú komið niður í 4,8 og hefur skuldsetning á þennan mælikvarða aldrei verið minni í sögu fyrirtækisins.
Nú hafa skapast skilyrði til að auka arðgreiðslur Landsvirkjunar í skrefum til eiganda síns, en síðastliðinn áratug hefur fyrirtækið fjárfest fyrir um einn milljarð dollara í nýjum orkumannvirkjum og á sama tíma greitt niður skuldir fyrir einn milljarð dollara.“
Rekstur
Þróun rekstrartekna
Í sögulegu samhengi hafa tekjur Landsvirkjunar verið stöðugar þrátt fyrir sveiflur á álverði og gengi gjaldmiðla. Síðustu tvö ár hafa tekjur hækkað en rekstrartekjur ársins 2018 eru þær hæstu í sögu Landsvirkjunar. Í samanburði við árið 2017 jukust þær um 51 m.USD. Skýrist sú hækkun að mestu vegna aukinnar orkusölu, hærri flutningstekna og hærra álverðs. Hluti af raforkusamningum eru tengdir álverði.
EBITDA og EBITDA hlutfall
Rekstrarhagnaður samstæðunnar fyrir afskriftir, EBITDA, nam 390 m.USD árið 2018. Þróun EBITDA hefur verið í takt við tekjuþróun fyrirtækisins. Kostnaður hefur einnig farið hækkandi. Einkum vegna almennrar launaþróunar og hækkunar á aðkeyptri vinnu og vörum. Áhrif íslensku krónunnar jafnast út í tekjum og gjöldum sem myndar náttúrulega gengisvörn.
Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði
Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði er sá mælikvarði sem Landsvirkjun horfir til þegar metinn er grunnrekstur fyrirtækisins. Afkoma grunnrekstrar hefur farið batnandi á síðustu árum að árinu 2016 undanskildu. Hagnaðurinn á árinu 2018 var sá mesti í sögu Landsvirkjunar og nam um 184 m. USD. Hækkandi rekstrartekjur eru helsti áhrifavaldurinn á aukinn hagnað milli ára. Hækkun fjármagnsgjalda kemur þó á móti en einskiptisfærsla vaxtagjalda, að fjárhæð 10,5 m. USD í tengslum við uppgreiðslu á skuldabréfi og láni, var á öðrum ársfjórðungi 2018.
Áhrifaþættir á hagnað fyrir óinnleysta fjármagnsliði árið 2018
Nettó skuldir lækka
Landsvirkjun hefur lagt mikla áherslu á að lækka skuldir síðustu ár. Nettó skuldir eru vaxtaberandi skuldir að frádregnu handbæru fé fyrirtækisins. Frá áramótum hafa nettó skuldir lækkað um 158 m. USD. Umfangsmiklu framkvæmdatímabili er nú senn að ljúka en fjárfest var fyrir 151 m. USD á tímabilinu. Þar ber hæst bygging tveggja virkjana, Þeistareykja og Búrfells II, sem báðar hafa nú verið teknar í fullan rekstur. Fjármunamyndun fyrirtækisins (handbært fé frá rekstri) var um 296 m. USD á tímabilinu og stóð því að fullu undir fjárfestingum tímabilsins.
Nettó skuldir og eiginfjárhlutfall
Handbært fé samstæðunnar í lok árs 2018 nam 116 m.USD en þróunin sést á grafinu hér að neðan. Handbært fé frá rekstri hefur staðið undir fjárfestingum síðastliðinna ára og er það forsenda bættrar skuldastöðu fyrirtækisins. Nú þegar framkvæmdum lýkur mun sjóðstreymi á næstu árum að mestu fara til lækkunar skulda.
Árið í hnotskurn og horfur í rekstri
Rekstur Landsvirkjunar gekk vel á árinu 2018. Orkuvinnsla og orkusala hafa aldrei verið meiri og einnig voru tekjur þær hæstu í sögu fyrirtækisins. Staða Landsvirkjunar er sterk um þessar mundir og hafa helstu fjárhagskennitölur ásamt lánshæfismati styrkst undanfarin ár. Fyrirtækið mun áfram leggja áherslu á gott viðhald á núverandi eignum. Samhliða sterkri sjóðsmyndun er fyrirsjáanlegt að skuldir Landsvirkjunar muni lækka og arðgreiðslur til ríkisins, eiganda fyrirtækisins, hækka.
Markvisst hefur verið unnið að því að draga úr markaðsáhættu undanfarin ár þar sem hlutfall fastra vaxta hefur verið aukið og dregið hefur verið úr gjaldmiðlaáhættu. Þá hefur verið dregið úr álverðsáhættu, annars vegar með samningum við nýja og núverandi viðskiptavini og hins vegar með notkun afleiðusamninga. Afkoma fyrirtækisins mun þó áfram ráðast af þróun markaða og eftirspurnar viðskiptavina.
Ársfundur Landsvirkjunar fer fram í Hörpu kl. 14.00 í dag. Frekari upplýsingar og skráning á fundinn má finna á eftirfarandi vefslóð:
www.landsvirkjun.is/fyrirtaekid/fjolmidlatorg/vidburdir/arsfundur-2019/
Um ársreikninginn
Ársreikningur Landsvirkjunar er gerður samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) og er hann í Bandaríkjadölum sem er starfrækslugjaldmiðill móðurfélagsins.