Þórður Már Jónsson skrifar áhugaverða grein á Facebook
Ég verð að viðurkenna, að ég er ekki viss um hvert samfélag okkar er að fara. Fólk öskrar úti um stræti og torg á að reglur verði settar sem heimilar ríkisvaldinu að nauðungarvista hvern þann sem kemur inn í landið, hvort sem um sýkta aðila er að ræða eða ekki. Til þess að frelsissvipta megi fólk þarf að fara eftir mjög ströngum reglum. Setja má reglur um skerðingu á réttindum borgaranna með reglugerð, sem verður þá að eiga sér stoð í lögum, en einnig mega lögin (og reglugerðir á þeim byggðar) ekki vera í andstöðu við grundvallarreglur samfélagsins, stjórnarskrána og svo auðvitað einnig MSE.
Þegar er búið að setja reglur sem eru fullkomlega ólöglegar. Með þeim er verið að skikka fólk í nauðungarvistun eftir komuna til Íslands. Reglugerðin er sett með stoð í sóttvarnalögum, en vandinn er bara sá, að í sóttvarnalögum er engin heimild til að frelsissvipta fólk vegna smitsjúkdóms, nema það sé sjálft smitað. Engin heimild er til að halda nauðungarvistuðu fólki sem er ósmitað.
Þá segir fólk, að það þurfi bara einfaldlega að setja skýrari reglur, þ.e. að setja þurfi skýrlega í sóttvarnalögin að nauðungarvista/frelsissvipta megi hvern þann sem kemur inn í landið, í ákveðinn tíma, óháð því hvort viðkomandi er smitaður eða ekki. Hjá þessu fólki er algjört aukaatriði, að ekki er hægt að setja slíkar lagareglur nema þær standist ákvæði stjórnarskrár og MSE. Vandamálið er það, að útilokað er að það stæðist ákvæði stjórnarskrár og MSE ef slíkar reglur væru settar, þ.e. reglur sem heimila stjórnvöldum að nauðungarvista fólk sem ekki er sýkt af þessum smitsjúkdómi.
Nú er ég farinn að sjá, að fólk er reiðubúið til að kasta þessum grundvallarréttindum borgaranna frá sér, og heimila ríkisvaldinu að nauðungarvista fullkomlega heilbrigt fólk. Þetta gæti EKKI gerst nema við afsölum okkur þeim réttindum sem okkur eru tryggð í stjórnarskránni og MSE. Það eru samt furðu margir sem lýsa sig reiðubúna til þess. Það er hreinlega hrollvekjandi og maður veltir því fyrir sér hvort við séum stödd í sögunni 1984 eftir Orwell. Það er eins og fólk geri sér ekki grein fyrir, hversu gífurlegar fórnir þurfti að færa til þess að við, almenningur, myndum öðlast þessi réttindi.
Í lokin langar mig að birta hérna hugmynd sem ég sá einn áhugamann um afsal mannréttinda almennings koma með í umræðu fyrr í dag:
„Er eitthvað flókið að skrifa lögin nógu skýrt til þess að enginn vafi sé um umfang þeirra?
Tillaga: „framkvæmdarvaldið má setja í 14 daga varðhald hvern þann einstakling sem fer innfyrir landamæri Lýðveldisins Íslands. Varðhald þetta skal haldið í svokölluðu sóttvarnarhúsi. „
Og svo fylgir nákvæm skilgreining á sóttvarnarhúsinu.
Ég meina, það er í raun það eina sem beðið er um. Skýr texti sem segir nákvæmlega hvað sé heimilað. Engar túlkanir takk.“
Þetta er vitanlega bara ein hugmyndin. En, já, mjög mörgu fólki er fullkomin alvara með þessu. Og þetta er hægt, vitanlega. En fyrst þurfum við auðvitað að afsala okkur grundvallarmannréttindum þeim sem okkur eru tryggð í mannréttindakafla stjórnarskrár og MSE. Mér sýnist að það sé eitthvað sem margir eru reiðubúnir að berjast fyrir.
Ég verð að viðurkenna, að ég er ekki viss um hvert samfélag okkar er að fara. Fólk öskrar úti um stræti og torg á að…
Posted by Þórður Már Jónsson on Friday, 2 April 2021