Lögregla hefur haft eitt og annað fyrir stafni á höfuðborgarsvæðinu í dag. Í morgunsárið var tilkynnt um tvo aðila fara upp á vinnupalla við fjölbýlishús í Reykjavík og þaðan inn í íbúð. Voru aðilarnir gómaðir glóðvolgir af lögreglu og þeim stungið í grjótið meðan unnið var að rannsókn málsins.
Þá var tilkynnt um innbrot í fyrirtæki austurborg en þaðan var bifreið m.a. stolið. Einnig var framið innbrot í fyrirtæki í Kópavogi, en lögregla hefur sterkar vísbendingar um hver var þar að verki.
Ökumaður var kærður fyrir ölvunarakstur og tveir fyrir akstur undir áhrifum vímuefna. Reyndust þeir báðir þegar hafa verið sviptir ökuréttindum vegna fyrri brota af sama tagi. Má benda á að sektir vegna aksturs sviptur ökurétti eru nokkuð háar, en við fyrsta broti af því tagi liggur 120.000 króna sekt.
Vinnuslys varð á byggingarsvæði í vesturbæ þar sem starfsmaður slasaðist á fæti. Var viðkomandi fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku.
Umræða