Bíó Paradís við Hverfisgötu mun hefja starfsemi að nýju í haust, en kvikmyndahúsið hefur verið lokað um nokkurt skeið vegna Covid-19 og óvissu um leigu á húsnæði undir starfsemina. Nú hefur þeirri óvissu verið eytt með nýju samkomulagi við eigendur hússins og uppfærslum á samstarfssamningum við ríki og borg. Stefnt er að því að ná að opna bíóið á ný um miðjan september næstkomandi, en þá verða liðin tíu ár frá því að starfsemi hófst þar.
Vegna aðstæðna þurfti Bíó Paradís að segja upp öllu starfsfólki síðastliðið vor, en þá höfðu aðilar ekki náð saman um leigukjör og nauðsynlegar endurbætur og viðhald húsnæðisins til lengri tíma. Það hefur nú tekist, eftir að málsaðilar slógu af ítrustu kröfum sínum og mættust á miðri leið. Áframhaldandi starfsemi í kvikmyndamenningarhúsinu við Hverfisgötu hefur því verið tryggð.
„Íslensk kvikmyndamenning stendur í miklum blóma og það er hlutverk okkar að vökva vel jarðveginn sem hún sprettur úr. Í því samhengi gegnir Bíó Paradís mikilvægu hlutverki, í samstarfi við atvinnugreinina, Kvikmyndamiðstöð Íslands og Kvikmyndasafn Íslands. Við ráðgerum að kynna með haustinu heildstæða kvikmyndastefnu fyrir Ísland, þar sem m.a. er gert ráð fyrir rekstri öflugs kvikmyndamenningarhúss. Starfsemi Bíós Paradísar fellur vel að því markmiði og ég hlakka til að sjá dyr þess opnast á ný,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.
„Þetta er sannkallað gleðiefni,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri. „Við erum með þessu að tryggja að Bíó Paradís sinni áfram þeirri mikilvægu menningarstarfsemi sem hún hefur sinnt undanfarin áratug. Bíóið er sannkölluð vagga kvikmyndamenningar í Reykjavík og á landinu öllu. Þá er ótrúlega mikilvægt að Hverfisgatan verði áfram heimili kvikmyndanna og haldi áfram að sjá kvikmyndaþyrstum gestum fyrir fjölbreyttu framboði af allskonar bíómyndum frá öllum heimshornum.“
Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Bíós Paradísar segist vera himinlifandi með niðurstöðuna: „Við viljum þakka öllu stuðningsfólki Bíós Paradísar fyrir stuðninginn, en þó sérstaklega mennta- og menningarmálamálaráðuneytinu, Reykjavíkurborg og eigendum hússins, félaginu Karli Mikla ehf. Við getum ekki beðið eftir að fara að sinna kvikmyndamenningunni aftur og halda áfram að færa landsmönnum öllum fjölbreytta kvikmyndaupplifun í betri aðstöðu.“