Laun þingmanna hækkuðu um rúmlega 60 þúsund krónur, eða 4,7 prósent í gær. Þingfararkaup er nú rúmlega 1,3 milljónir króna á mánuði. Þingmenn hafa svo möguleika á að drýgja tekjur sínar vegna ýmiss kostnaðar sem tengist starfi þeirra, auk þess sem greitt er fyrir aukalega fyrir formennsku í nefndum að sögn Rúv.is sem hefur rýnt í launahækkanir þingheims.
Ráðherrar fá sömuleiðis 4,7 prósenta launahækkun og hækka mánaðarlaun þeirra um nærri hundrað þúsund krónur á mánuði. Ráðherrar hafa verið með rúmlega 2,1 milljón króna í laun á mánuði og hækka þá nú upp í rúmlega 2,2 milljónir króna. Laun Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra eru svo tæplega 2,5 milljónir króna á mánuði en voru tæplega 2,4 milljónir króna áður. Ráðuneytisstjórar, seðlabankastjóri og varaseðlabankastjóri og ríkissaksóknari eru einnig meðal þeirra sem hækka í launum. Mánaðarlaun þeirra eru nú yfir tvær milljónir króna, segir í fréttinni.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hækkar einnig um 4,7 prósent í launum. Mánaðarlaun hans eru nú rúmlega 3,6 milljónir króna og hækka um 163 þúsund krónur og verða tæpar fjórar milljónir á mánuði, eða samtals 45 milljónir á ári. Kjararáð var lagt niður árið 2018 eftir að hafa verið mjög umdeild fyrir rílegar hækkanir til fyrirmanna hjá ríkinu.