Ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara hefur ákveðið að leggja ekki til við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að opna tollkvóta fyrir lambahryggi. Rannsókn nefndarinnar undanfarna daga hefur leitt í ljós að skilyrði 65. gr. A búvörulaga eru ekki uppfyllt.
Hinn 26. júlí sl. lagði ráðgjafanefnd um inn- og útflutning landbúnaðarvara til við ráðherra að opnað yrði á tollkvóta fyrir lambahryggi tímabilið 29. júlí til 30. ágúst þar sem nefndin hafði komist að þeirri niðurstöðu eftir rannsókn sína að ekki væri nægilegt framboð til staðar.
Samkvæmt lögunum telst framboð ekki nægjanlegt ef varan er ekki til stöðugrar dreifingar eða áætla má að hún verði það ekki í að lágmarki 90% magni af eftirspurn a.m.k. tveggja leiðandi ótengdra dreifingaraðila og er ekki fáanleg frá a.m.k. tveimur framleiðendum. Áður en ráðherra hafði tekið afstöðu til tillögu nefndarinnar fékk nefndin upplýsingar um breytta birgðastöðu framleiðenda. Með hliðsjón af þeim upplýsingum óskaði ráðherra eftir því að nefndin tæki málið til afgreiðslu að nýju og lyki rannsókn sinni í þessari viku. Nefndin hóf því rannsóknarferli sitt að nýju og aflaði upplýsinga frá framleiðendum og dreifingaraðilum.
Rannsókn nefndarinnar dagana 30. og 31. júlí leiddi í ljós nýjar og ítarlegri upplýsingar bæði frá framleiðendum og dreifingaraðilum. Bæði hafði birgðastaða framleiðenda breyst auk þess sem nýjar upplýsingar bárust um birgðastöðu dreifingaraðila. Þá hefur verið tekin ákvörðun um að hefja slátrun fyrr hjá hluta framleiðanda. Þessar upplýsingar breyttu stöðunni frá því sem áður hafði legið fyrir. Niðurstaða ráðgjafanefndarinnar er því sú að skilyrði 65. gr. A búvörulaga fyrir opnun á tollkvóta fyrir lambahryggi eru ekki uppfyllt.
Það regluverk sem gildir um úthlutun tollkvóta hefur verið til endurskoðunar hjá ráðuneytinu um nokkurt skeið. Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, lagði í síðasta mánuði fram á samráðsgátt stjórnvalda drög að frumvarpi til laga um breytingu á búvörulögum og stendur umsagnarferlið til 8. ágúst nk. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á úthlutun tollkvóta og er markmið frumvarpsins að stuðla að auknum ábata fyrir neytendur og að aukinni samkeppni á markaði með landbúnaðarvörur. Frumvarpið á auk þess að einfalda og skýra regluverk um úthlutun tollkvóta. Stefnt er að því að frumvarpið verði lagt fram á Alþingi á komandi haustþingi.