Þrátt fyrir að landsmenn hafi verið á faraldsfæti um verslunarmannahelgina var í mörg horn að líta á helgarvaktinni á höfuðborgarsvæðinu, en nítján líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglu, þar af tvær alvarlegar. Þá var farið í fjórtán útköll vegna heimilisofbeldis.
Tíu innbrot voru tilkynnt um helgina og var helmingur þeirra í bifreiðar og geymslur, en eitt í íbúðarhúsnæði. Tvö rán voru enn fremur framin í umdæminu.
Þrjátíu og sex ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og fíkniefnaakstur í umdæminu um verslunarmannahelgina. Þá var á fjórða tug ökumanna staðinn að hraðakstri á helstu vegum til og frá höfuðborgarsvæðinu. Tveir þeirra voru á ofsahraða, eða tæplega 160, en báðir þurfa að sæta sviptingu ökuréttinda og borga rúmlega 200 þúsund kr. í sekt.
Loks má nefna að höfð voru afskipti af hátt í fimmtíu ökutækjum sem öllum var lagt ólöglega í umdæminu um verslunarmannahelgina og bíður eigenda/umráðamanna þeirra sekt fyrir vikið.
Umræða