Miðflokkurinn mælist stærri í skoðanakönnunum en Sjálfstæðisflokkurinn. Staðan er 15,3 prósent hjá Miðflokknum á móti 13,9 hjá Sjálfstæðisflokknum í könnun Maskínu.
Fjallað var um stöðuna og spáð í spilin á vef Eyjunnar og þar segir að eins og hjá Samfylkingu sé búist við því að Miðflokkurinn bæti við sig verulegu fylgi í næstu alþingiskosningum og þar af leiðandi mörgum nýjum þingmönnum. En þá hefst ráðgátan um það hverjir séu líklegastir til þess að ganga til liðs við Miðflokkinn.
Velt er upp mögum möguleikum í stöðunni og meðal annars nöfnum Guðmundar Franklíns Jónssonar, hagfræðings og lögmannsins Arnars Þórs Jónssonar en báðir hafa verið í framboði til forseta Íslands. Þá eru Hallfríður Hólmgrímsdóttir, í Grindavík, Hlynur Jóhannsson, Akureyri og Þröstur Jónsson í Múlaþingi talin líkleg.
Sem og Tómas Ellert Tómasson fyrrverandi bæjarfulltrúi í Árborg, Þorsteinn Sæmundsson fyrrverandi þingmaður, Þorgrímur Sigmundsson varaþingmaður, Jón Þór Þorvaldsson fyrrverandi varaþingmaður og síðast en ekki síst Vigdís Hauksdóttir fyrrverandi borgarfulltrúi. Auk þeirra eru taldir upp þingmenn úr Sjálfstæðisflokknum sem gætu e.t.v. vel hugsað sér að söðla um en flóttamenn úr Sjálfstæðisflokknum hafa margir hverjir og líklega flestir farið yfir í Miðflokkinn.