Mikið er um niðurgangspestir um þessar mundir og geta þeir sem meðhöndla og bera fram mat dreift smiti víða. Smitaðir einstaklingar sem starfa í veitingahúsum, mötuneytum, verslunum og matvælavinnslum skulu ávallt forðast að meðhöndla matvæli þar til tveimur dögum (48 klst) eftir að sjúkdómseinkenni hverfa.
Nóróveirusýkingar hafa verið áberandi að undanförnu. Helstu einkenni nóróveirusýkingar eru niðurgangur og/eða uppköst sem fylgt geta kviðverkir, beinverkir, höfuðverkur og stundum vægur hiti. Tími frá smiti þar til einkenni koma fram eru 1-2 sólarhringar. Sjúkdómurinn gengur í langflestum tilfellum yfir á einum til þremur sólarhringum án nokkurrar meðferðar.
Smitleiðir eru margar og getur veiran smitast beint manna á milli við snertingu. Uppköst eru bráðsmitandi og eru dæmi þess að veiran hafi borist í loftinu til fólks í nánasta umhverfi. Önnur algeng smitleið er með fæðu og vatni og er mengun matvæla frá sýktum einstaklingum algeng smitleið. Einnig geta matvæli mengast í framleiðslunni með menguðu vatni við vökvun eða skolun.
- Leiðbeiningar Matvælastofnunar um meðhöndlun matvæla
- Upplýsingasíða Embættis landlæknis um nóróveiru, ásamt forvörnum og bæklingi
- Aukning á niðurgangspestum undanfarið – frétt Embættis landlæknis frá 01.11.19