Nýr ráðuneytisstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti
Ákveðið hefur verið að skipa Pál Magnússon í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneyti. Skipað er í embættið til fimm ára frá og með 1. desember nk. Samkvæmt yfirlýsingu frá mennta- og menningarmálaráðuneyti Lilju Daggar Alfreðsdóttur, varaformanns Framsóknarflokksins.
Páll hefur fjölþætta menntun og reynslu af stjórnunarstörfum hjá hinu opinbera. Hann lauk meistaragráðu í lögfræði frá Háskólanum í Reykjavík og meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands. Hann er auk þess með BA-gráðu í guðfræði frá sama skóla. Frá árinu 2006 hefur hann starfað sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og bæjarritari hjá Kópavogsbæ, stýrt umbótum á stjórnsýslu bæjarins og m.a. haft forgöngu um innleiðingu gæðakerfis.
Hann starfaði áður í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu um sjö ára skeið, sem aðstoðarmaður ráðherra. Páll sat í stjórn Landsvirkjunar frá árinu 2007 til 2011, þar af sem formaður frá 2007 til 2008, var varaformaður útvarpsráðs og síðar stjórnar RÚV ohf. frá 2003 til 2008. Hann var stjórnarformaður Fjárfestingastofu Íslands frá 1999 til 2006 og á sama tímabili varamaður í stjórn Norræna fjárfestingabankans (NIB). Á árunum 1990-1998 var hann varabæjarfulltrúi í Kópavogi og varaþingmaður frá 1999 til 2007.
Páll hefur talsvert sinnt málefnum barna, m.a. með innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Kópavogsbæ, en það verkefni hefur leitt til samstarfs bæjarins við UNICEF – barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna. Hann hefur setið í stjórnum Vímulausrar æsku, Umhyggju – félags langveikra barna og Sjónarhóls – ráðgjafarmiðstöðvar.
Þrettán sóttu um embættið og mat hæfnisnefnd fjóra umsækjendur mjög hæfa til þess að gegna því. Í kjölfarið boðaði ráðherra þá í viðtal, þar sem ítarlega var farið ofan í einstaka þætti starfsins og sýn umsækjenda. Var það mat ráðherra, að Páll Magnússon væri hæfastur umsækjenda til að stýra ráðuneytinu næstu fimm árin og leiða það umbótastarf sem er í farvatninu. Það miðar að því að efla mennta- og menningarmálaráðuneytið, bæta verkferla og starfshætti svo meðferð mála verði eins skilvirk og frekast er unnt.