Árslaun forstjóra Landsvirkjunar í fyrra voru 41 milljón króna og hafa laun forstjórans aukist skarpt á allra síðustu árum skv. frétt á Mbl.is. Þar segir að árið 2014 hafi laun forstjóra Landsvirkjunar verið 20 milljónir og hafi árslaun forstjóra fyrirtækisins þannig tvöfaldast á einungis fimm árum. Þetta kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Þorsteini Sæmundssyni þingmanni Miðflokksins.
En Þorsteinn Sæmundsson spurði fjármálaráðherra bæði út í það hvernig launakjör yfirstjórnar Landsvirkjunar hefðu þróast síðustu 20 árin og hvernig starfsmannafjöldi hjá fyrirtækinu hefði þróast á sama tímabili.