Styrmir Gunnarsson kosinn formaður hins nýja félags með öllum greiddum atkvæðum
Klofningur í Sjálfstæðisflokknum? ..eða aukin sátt um grunngildi flokksins?
Þann 1. desember 2019 var stofnað Félag sjálfstæðismanna um fullveldismál í Valhöll í Reykjavík. Stofnfundinn sóttu um 80 manns. Tilgangur félagsins er að „efla samhug sjálfstæðismanna um fullveldið með því að halda til haga og verja, með fræðslu og upplýsingu, þau grunngildi Sjálfstæðisflokksins um frjálsa og fullvalda þjóð“, eins og segir í lögum félagsins.
Margir sjálfstæðismenn telja fulla þörf á aukinni umræðu og fræðslu um fullveldismál íslensku þjóðarinnar ekki síst í ljósi þeirra deilu sem varð um innleiðingu 3. orkupakka ESB í íslensk lög. Eftir þá óeiningu sem orkupakkamálið olli bæði í Sjálfstæðisflokknum og þjóðfélaginu öllu telja félagsmenn nauðsynlegt að ræða framtíðarstöðu málaflokksins og hversu langt eigi að ganga í því að innleiða hér orkustefnu Evrópusambandsins.
Á fundinum fluttu stutt ávörp þeir Jón Gunnarsson ritari Sjálfstæðisflokksins og þingmaður, Ásmundur Friðriksson þingmaður, Viðar Guðjohnsen jr, lyfjafræðingur, Jónas Elíasson prófessor og Styrmir Gunnarsson f.v. ritstjóri, en hann var einróma kjörinn formaður félagsins. Í lok fundarins flutti Séra Kristinn Ágúst Friðfinnsson jólahugvekju og fundarmenn sungu nokkur jólalög undir stjórn Eyþórs Arnalds.
Eitt af markmiðum með stofnun félagsins er að halda til haga, með fræðslu og upplýsingu, merkum þáttum í sögu Sjálfstæðisflokksins sem tengjast fullveldisbaráttu þjóðarinnar, s.s. stofnun lýðveldis, varnarsamstarfi frjálsra þjóða og baráttunni um yfirráð yfir auðlindum hafsins. Slík fræðsla er afar mikilvæg, ekki síst fyrir ungt fólk. Þá er ætlunin að efna til opinna skoðanaskipta um aðra helstu auðlind þjóðarinnar, sem er orka fallvatnanna og jarðvarmans. Að fengnu samþykki Miðstjórnar flokksins fyrir þessari félagsstofnun mun verða efnt til málþings og fundarhalda þar sem þetta málefni verður rætt frá öllum hliðum.
Styrmir Gunnarsson f.v. ritstjóri var kosinn formaður hins nýja félags með öllum greiddum atkvæðum