Stjórn Hvatningarverðlauna ÖBÍ hefur opinberað tilnefningar til verðlaunanna í ár. Verðlaunin verða afhent við hátíðlega athöfn á morgun, 3. desember, á alþjóðlegum degi fatlaðs fólks.
Í ár eru tilnefnd eftirfarandi, birt hér í stafrófsröð:
- Haraldur Ingi Þorleifsson, fyrir verkefnið Römpum upp Reykjavík. Tilgangur verkefnisins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslunum og veitingahúsum í Reykjavík.
- Seres hugverkasmiðja, fyrir sjónvarpsþáttaröðina – Dagur í lífi. Þættirnir gefa einstaka sýn í líf fatlaðs fólks á öllum aldri.
- Styrmir Erlingsson, fyrir hugrekki, kraft og einstakan metnað sem starfrænn verkefnastjóri hjá Velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar.
Reykjadalur, fyrir sumarbúðirnar í Mosfellsdal, sem auðga framboð í frístundastarfi fyrir fötluð börn og ungmenni.
Öll þessi verkefni telur stjórn Hvatningarverðlauna ÖBÍ að endurspegli nútímalegar áherslur um þátttöku, sjálfstæði og jafnrétti fatlaðs fólks og stuðli að einu samfélagi fyrir alla, og falli því vel að tilgangi Hvatningarverðlaunanna.
Nánari upplýsingar um Hvatningarverðlaunin má finna á vefsvæði verðlaunanna, https://hvatningarverdlaun.is/
Þau sem voru tilnefnd, fengu í morgun senda köku af því tilefni. Myndir sem fylgja sýna starfsmenn Velferðarþjónustu Reykjavíkurborgar fagna Styrmi.
Streymt verður frá því þegar forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, afhendir verðlaunin, en vegna 50 manna samkomutakmarkana er því miður ekki hægt að hafa verðlaunaafhendinguna opna. Streymið verður aðgengilegt á Facebook síðu ÖBÍ, athöfnin hefst klukkan 16.