Rannsókn banaslyss við Núpsvötn
Fyrstu aðgerðum í rannsókn banaslyss við Núpsvötn þar sem bifreið var ekið út af brúnni þann 27. desember s.l. er nú að ljúka og vinna við hana fer nú í farveg þar sem beðið er niðurstaðna úr einstaka verkþáttum rannsóknarinnar, s.s. vettvangsmælingum, rannsókn á ökutækinu sjálfu, ýmsum sýnum sem aflað hefur verið, endanlegri niðurstöðu krufninga o.fl.
Ökumaður var yfirheyrður, á sjúkrahúsi, í gær en hann reyndist muna fátt um málsatvik. Hann nýtur réttarstöðu sakbornings en hinsvegar verður ekki gerð krafa um að hann sæti farbanni vegna rannsóknar og dómsmeðferðar málsins. Þar er einkanlega horft þeirra áverka sem hann hlaut í slysinu og fyrirsjáanlegrar læknismeðferðar sem fyrir liggur að hann þurfi að gangast undir vegna þeirra.
Ökumaðurinn ásamt bróður hans og börnunum tveimur bíða þess að fá vottorð læknis um að þau séu ferðafær og megi fara til síns heima í Bretlandi. Samkvæmt upplýsingum lögreglu er gert ráð fyrir að þau þurfi öll að leggjast þar inn á sjúkrahús þar til frekari meðferðar þó áverkar þeirra séu mis alvarlegir.
Tengt efni:
https://www.fti.is/2018/12/28/itarlegar-frettir-af-banaslysinu-asamt-nafngreiningu-hja-breskum-midlum/