Nýtt fjölnota íþróttahús sem er staðsett á Selfossvelli mun bera heitið „Selfosshöllin“
Mikilvægt er að hið glæsilega íþróttamannvirki sem risið er á Selfossvelli beri heiti sem íbúar og notendur geta notaði í daglegu tali.
Í ljósi aðstæðna er því brugðið á það ráð að afhjúpa nafn Selfosshallarinnar með þessari fréttatilkynningu segir á vef sveitarfélagsins Árborgar. Til stóð að halda veglega opnunarhátíð í nóvember þar sem nýja nafnið yrði formlega afhjúpað en vegna samkomutakmarkana hefur ekki verið hægt að halda viðburðinn ennþá.
Í samstarfi við Umf. Selfoss og fleiri félagasamtök í sveitarfélaginu er þó stefnt á opnunarhátíð um leið og færi gefst síðar í vor eða sumar.
Haustið 2021 skipaði Sveitarfélagið Árborg starfshóp sem hafði það hlutverk að velja nafn á nýja fjölnota íþróttahúsinu á Selfossvelli. Í hópnum voru þrír fulltrúar frístunda- og menningarnefndar og tveir frá Ungmennafélags Selfoss sem er rekstraraðili Selfossvallar en með hópnum starfaði Bragi Bjarnason, deildastjóri frístunda- og menningardeildar.
Hópurinn leitaði til íbúa og áhugasamra í gegnum samráðsgáttina “Betri Árborg” eftir ábendingum og var öllum opið að senda inn hugmyndir.
Niðurstöður starfshópsins voru samþykktar á fundi frístunda- og menningarnefndar og kynntar í bæjarráði í október 2021.
Sveitarfélagið Árborg vill óska iðkendum og öðrum íbúum til hamingju með Selfosshöllina.
Selfosshöllin hefur nú þegar nýst iðkendum vel í vetur og eru æfingar á vegum akademía Fsu og knattspyrnu- og frjálsíþróttadeildar haldnar daglega í húsinu en auk þess nýta húsið dagforeldra, leik- og grunnskólar, heilsueflingarteymi 60+, Geðheilsuteymi HSU og fjöldi íbúa sem ganga eða hlaupa í höllinni.