Valgerður Rúnarsdóttir varð fyrst íslenskra lækna til þess að ljúka prófi í fíknlækningum í Bandaríkjunum og hefur unnið við að lækna íslenska áfengis- og vímuefnasjúklinga á Vogi. Valgerður er í ítarlegu forsíðuviðtali í SÁÁ blaðinu og ræðir þar meðal annars um fíknlækningar og batahorfur þeirra sem þjást af sjúkdómi áfengis- og vímuefnafíknar. Við birtum þá kafla úr viðtalinu hér að neðan.
„Fíknlækningar eru frekar ný sérgrein í læknisfræði,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, sem varð fyrst íslenskra lækna til þess að ljúka viðurkenndu sérfræðiprófi í fíknlækningum í Bandaríkjunum.
„Það eru nokkrir áratugir síðan það var ljóst hvað lægi að baki þessum sjúkdómi og í dag er talað um þetta upphátt og opinberlega sem sjúkdóm í heilanum. Við læknar getum fengið mjög miklar upplýsingar um hvað veldur, hvaða breytingar verða hjá sjúklingi og hvaða áhrif þær hafa.
Þverfagleg undirsérgrein
„Fíknlækningar eru þverfagleg undirsérgrein við aðrar sérgreinar í læknisfræði; til dæmis geta geðlæknar, lyflæknar, heimilislæknar eða fleiri sérfræðingar tekið fíknlækningar sem undirsérgrein. Aðalsérgreinin mín er almennar lyflækningar en fíknlækningar undirsérgrein.
Rúmlega 3.000 læknar í Bandaríkjunum hafa lokið því prófi sem ég er með. Þetta er ný sérgrein og metnaðarfull og það er lögð mikil áhersla á endurmenntun og réttindum er viðhaldið með sérstökum prófum sem er haldið utan um samkvæmt ákveðnu kerfi. Það er skemmtilegt að taka þátt í því og þegar ég kemst í tæri við aðra lækna sem eru að sinna því sama þá líður mér mjög vel að hafa tækifæri til að vinna við á þessu sviði og taka þátt í að keyra þetta starf áfram hér á Íslandi eins og SÁÁ hefur borið gæfu til að gera. Það er yndislegt að vera þátttakandi í því.”
Svipað og aðrir langvinnir sjúkdómar
„Þegar um er að ræða sykursýki, háan blóðþrýsting, þunglyndi og margs konar langvinna sjúkdóma aðra, nær hluti sjúklinga góðum árangri við fyrsta inngrip og þarf ekki meir. Sumir þurfa aukna meðferð eins og stærri skammta af blóðþrýstingslyfi eða einhverskonar viðbót eða breytingu á meðferð og þá næst fínn árangur.
Prósenturnar hvað þetta varðar eru svipaðar og hjá áfengis- og vímuefnasjúklingum. Sumir þurfa bara eina meðferð en aðrir þurfa að koma aftur og gera meira til þess að ná betri árangri. Svo eru einhverjir sem eru með skæðan sjúkdóm og illa viðráðanlegan sama hvað er gert.
Auðvitað er mesta púðrið lagt í þessa veikustu af því að þeir eru veikastir og þurfa mikils við. En jafnframt er mikilvægt að það séu opnar dyr fyrir þá sem grípa inn í fíknina snemma því að batalíkur eru miklar og góðar.
Það er mikilvægt að vera með hugann við að þetta er sjálfstæður sjúkdómur og það þarf að sinna honum sérstaklega.
Í gegnum tíðina hefur oft verið reynt að meðhöndla áfengissýki með því að meðhöndla einungis afleiðingarnar en það nægir ekki fyrir þennan heilasjúkdóm. Miða þarf að því að fyrirbyggja fall hjá þeim sem til dæmis hefur hætt að drekka eða nota vímuefni.
Sjúklingurinn veikastur fyrir fallið
Það er spurt: Ef manneskjan er hætt af hverju er hún þá ekki bara hætt það sem eftir er ef það er það sem hún vill? Hún fellur, hvers vegna er það? Það er sjúkdómurinn. Áður en manneskjan fellur er sjúkdómurinn virkastur og sjúklingurinn veikastur af hinni eiginlegu fíkn.
Stóra verkefnið okkar er að hjálpa fólki við að reyna að ná undirtökunum svo að það þurfi ekki að komast aftur á þann stað að fara að fá sér aftur. Það getur verið erfitt að sjá það takmark ef maður er flæktur í ýmis önnur mál. Þess vegna er mikilvægt að hafa það í huga að þetta er sérstakur, sjálfstæður sjúkdómur.
Fólk verður líka hundveikt af neyslunni. En það eru afleiðingar sjúkdómsins. Afleiðingarnar eru óteljandi og stundum hræðilegar, en þessi heilasjúkdómur sem fíknin er – sú bilun að fara að fá sér aftur – er virkastur áður en fallið kemur.
Viðtalið birtist fyrst í SÁÁ blaðinu sem kom út 29. desember 2014. Smellið á hlekkinn til að lesa viðtalið og blaðið í heild: SÁÁ Blaðið 3.tbl 2014