Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði í úrskurði sínum kröfu eiganda jarðar í innanverðu Ísafjarðardjúpi um ógildingu ákvörðunar Matvælastofnunar frá 4. september 2020. Með ákvörðuninni var Arctic Sea Farm hf. veitt rekstrarleyfi fyrir kynslóðaskiptu sjókvíaeldi á regnbogasilungi með 5.300 tonna hámarkslífmassa við Snæfjallaströnd í Ísafjarðardjúpi.
Þá vísaði Úrskurðarnefndin kröfum Náttúruverndarsamtaka Íslands, náttúruverndarfélagsins Laxi lifi, Veiðifélags Laxár á Ásum, svo og Akurholts ehf. og Geiteyrar ehf. eigenda Haffjarðarár frá nefndinni þar sem þessir aðilar áttu ekki kæruaðild að málinu.
Í úrskurðinum segir að útgáfa rekstrarleyfisins brjóti ekki í bága við markmið laga um fiskeldi, þess efnis að skapa skilyrði til uppbyggingar fiskeldis og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu, stuðla að ábyrgu fiskeldi og tryggja verndun villtra nytjastofna. Þá féllst nefndin ekki á að hið kærða rekstrarleyfi varðaði allt aðra framkvæmd en Skipulagsstofnun hafði fjallað um í ákvörðun sinni frá 6. mars 2014, þess efnis að framkvæmdin væri ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Af þeim sökum hafi ekki borið að rannsaka og bera saman valkosti. Jafnframt taldi nefndin að með hliðsjón af valdmörkum Matvælastofnunar og Umhverfisstofnunar og að teknu tilliti til þess að vöktunaráætlun skv. starfsleyfi Umhverfisstofnunar hafi ekki verið samþykkt, að misræmi í hvíldartíma rekstrarleyfisins og matskylduákvörðunar Skipulagsstofnunar varðaði ógildingu leyfisins.