Verð í Bauhaus var oftast lægst í verðkönnun verðlagseftirlits ASÍ í Bauhaus, Byko og Húsasmiðjunni þann 26. febrúar. Í samanburðinum var verð skoðað á 203 vörum en aðeins sex vörur voru fáanlegar í öllum þremur verslununum. Bauhaus var með lægsta verðið á 140 vörum, Byko á 48 og Húsasmiðjan á 20.
Mismargar vörur voru frá hverri verslun í samanburðinum, flestar í Bauhaus, 182, 164 í Byko og 66 í Húsasmiðjunni og er því hjálplegt að skoða þessar tölur sem hlutfall af fjölda vara úr hverri búð í samanburðinum.
Húsasmiðjan var að meðaltali nokkru dýrari en bæði Byko og Bauhaus. Verð þar var að meðaltali 14% frá lægsta verði í samanburði við Bauhaus og að meðaltali 9% frá lægsta verði í samanburði við Byko.
Á grafinu fyrir neðan má sjá hversu oft verð í hverri búð var innan tiltekinnar fjarlægðar frá lægsta verði. Til dæmis var Bauhaus innan við 10% frá lægsta verði í 87% tilfella í samanburðinum við Byko, en Byko í 78% tilfella. Í eitt skipti var Bauhaus 100% frá lægsta verði í þeim samanburði. Farið er í saumana á því neðar.
Fáar vörur til í öllum þremur verslunum
Verðlagseftirlitið skoðaði verð á 1.300 vörum í Byko og Húsasmiðjunni og um 10.000 vörum í Bauhaus, en þar af voru einungis 203 vörur til í fleiri en einni verslun og verðsamanburðurinn nær til þeirra.
Bauhaus oftar með lægra verð en Húsasmiðjan
Fjörutíu og sex vörur fundust í bæði Húsasmiðjunni og Bauhaus. Bauhaus var með lægra verðið í 34 tilfellum og var verð í Bauhaus að meðaltali 2% frá lægsta verði á meðan verð í Húsasmiðjunni var að meðaltali 14% frá lægsta verði.
Verð á Metabo hjólsagarblaði (216mm, 40 tanna) var 123% hærra í Húsasmiðjunni en í Bauhaus. Þriggja raða vírbursti frá Anza var falur fyrir 995 kr. í Bauhaus en sami bursti kostaði 1.695 kr. í Húsasmiðjunni. Nokkrar vörur voru þó dýrari í Bauhaus, og munaði þar mestu á tíu 9mm Stanley dúkahnífsblöðum (23% dýrari í Bauhaus) og Grohe Start III handsturtu (19% dýrari í Bauhaus).
Oft lítill munur á Bauhaus og Byko, stundum mikill
Að jafnaði var lítill verðmunur á Bauhaus og Byko miðað við þær 143 vörur sem fundust í báðum þessum verslunum. Verð í Bauhaus var að meðaltali 5% frá lægsta verði en 6% í Byko. Af þessum 143 vörum voru 38 tegundir af Kjörvara viðarvörn. Séu þær taldar frá var meðalfjarlægð frá lægsta verði 7% í Bauhaus en 8% í Byko. Bauhaus var með lægra verðið í 109 tilfellum og Byko í 37 tilfellum. Ryobi vörur voru með örfáum undantekningum ódýrari í Bauhaus.
Meðalverð segir þó einungis hálfa söguna þegar verðmunur er nær enginn í mörgum tilfellum en mikill í öðrum tilfellum. Sem dæmi má nefna verðmun á tveimur Ryobi Bluetooth hátalörum, sem voru á 50% afslætti í Byko. Verð á öðrum þeirra var tvöfalt hærra í Bauhaus, þar sem hann kostaði 11.985 kr. Í Byko kostaði hann 5.998 kr. Verð á hinum hátalaranum var 82% hærra í Bauhaus, þar sem hann kostaði 39 þúsund krónur. Sá kostaði 25 þúsund krónur í Byko.
Þriðji mesti verðmunurinn var á Bosch höggborvél (18V Universal Solo) sem var 57% dýrari í Byko en í Bauhaus – 39 þúsund í stað 25 þúsund króna.
Verð í Byko oftar lægra en í Húsasmiðjunni
Tuttugu og sjö vörur mátti finna í bæði Byko og Húsasmiðjunni. Að jafnaði var verð í Byko 2% frá lægsta verði en 9% frá lægsta verði í Húsasmiðjunni.
Mestur verðmunur var á Tesa teppalímbandi (25m x 50mm) sem kostaði 60% meira í Húsasmiðjunni en í Byko. Næst mestur var verðmunurinn á litlum Stanley brotblaðshníf, sem kostaði 35% meira í Húsasmiðjunni (1.180 kr.) en í Byko (875 kr.).
Um könnunina
Könnunin var framkvæmd 26. febrúar 2024 í vefverslunum, Byko Breiddinni og Húsasmiðjunni í Skútuvogi. Aðeins er um beinan verðsamanburð að ræða, ekki er lagt mat á gæði eða þjónustu söluaðila.
Óheimilt er að vitna í könnunina í auglýsingum og við sölu nema með heimild ASÍ.