Eitt og annað var við að vera þennan föstudaginn, en líkt og oft áður var það ekki allt til eftirbreytni, því miður. Þannig slógust tveir menn í austurbænum þannig að lögregla þurfti að koma að sáttamiðlun. Þá var tilkynnt um slagsmál í heimahúsi seinni partinn, en ekki eru fyrirliggjandi nánari upplýsingar um það mál þegar þetta er skrifað.
Reglulega er tilkynnt um aðila í annarlegu ástandi, sem oftar en ekki eru að angra samborgara sína. Á því varð ekki undantekning þennan daginn, en höfð voru afskipti af aðila á bókasafni annars vegar og í verslun hins vegar. Tilkynnt var um eld í skúr í austurborginni, en hann gereyðilagðist í eldinum. Ekkert er vitað um eldsupptök á þessu stigi, né í hvers eigu téður skúr var, enda stóð hann nokkuð afskekkt.
Þá var tilkynnt um þjófnað á miklu magni af skoðunarmiðum frá skoðunarstöð á höfuðborgarsvæðinu, en vert er að benda á tvennt af þessu tilefni. Annars vegar er það svo að lögregla notast við aðrar og nýstárlegri aðferðir en aflestur límmiða til að sannreyna hvort bifreiðar hafi verið skoðaðar og vátryggðar eður ei. Hitt er svo það, öllu alvarlegra, að þegar aðilar eru staðnir að því að vera með ranga skoðunarmiða á skráningarmerkjum ökutækja sinna hljóta þeir kæru vegna brota á hegningarlögum í verðlaun, enda fellur slík háttsemi undir ákvæði um skjalafals.