Sigtún þróunarfélag, fasteignaþróunarfélag sem stendur að uppbyggingu í miðbæ Selfoss, hefur fest kaup á hótelinu 360° Boutique Hotel að Mosató 3 í Flóahreppi fyrir 700 milljónir króna. Greint er frá kaupunum í Viðskiptablaðinu og þar kemur einnig fram að:
Hótelið sé staðsett í um fimmtán mínútna akstursfjarlægð frá miðbæ Selfoss. Það skilaði 13 milljóna króna hagnaði í fyrra, samanborið við 28 milljóna hagnað árið áður. Velta nam 259 milljónum í fyrra og jókst um 33 milljónir milli ára.
Kaupsamningur nær til fasteignarinnar sjálfrar, sem er 976 fermetrar og var byggð árið 2018, og 199 fermetra baðhúss, auk hótelrekstursins sem starfræktur er í eigninni. Þá fylgir nafnið 360 hótel og vörumerkið kaupunum.
Samkvæmt kaupsamningi mun Sigtún þróunarfélag fá hótelið afhent 1. nóvember næstkomandi.
Seljandinn er 360 gráður ef., sem er í eigu Önnu Fjólu Gísladóttur ljósmyndara og Ólafs Sigurðssonar, hótelstjóra hótelsins. Kennitala umrædds félags fylgir ekki með kaupunum en í kaupsamningi segir að seljanda beri að vera búin að breyta um nafn á félaginu fyrir afhendingu eignarinnar.
Sigtún þróunarfélag er í eigu Leós Árnasonar fjárfestis og Kristjáns Vilhelmssonar, útgerðarstjóra Samherja, en hann stofnaði útgerðarfélagið ásamt Þorsteini bróður sínum og Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast fréttina í heild hér.