Stjórn Síldarvinnslunnar hf. hefur samþykkt beiðni Samherja hf. um að kaup félagsins á helmingshlut í sölufyrirtækinu Ice Fresh Seafood ehf. gangi til baka. Þetta kemur fram á vef félagsins í neðangreindri tilkynningu. Tilkynnt var um kaupin 26. september í fyrra með hefðbundnum fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.
Að mati stjórnar Síldarvinnslunnar hf. hefur Samkeppniseftirlitið farið offari við skoðun málsins og gagnabeiðnir í engu samræmi við umgjörð viðskiptanna, sérstaklega í því ljósi að eingöngu er um að ræða sölu afurða á erlendum mörkuðum. Því líti út fyrir að gagnaöflunin sé farin að snúast um annað og meira en umrædd viðskipti.
Síldarvinnslan hf. hefur afhent Samkeppniseftirlitinu öll gögn sem óskað hefur verið eftir og eru á forræði félagsins. Mikill vilji var til að klára þessi viðskipti enda aðdragandinn langur og ávinningur fyrir íslenskan sjávarútveg augljós.
Ákvörðun stjórnar Síldarvinnslunnar hf. er tekin með hagsmuni félagsins í huga. Er það ekki síst vegna viðamikilla verkefna í kringum starfsemi Vísis ehf. í Grindavík en í liðinni viku hófst enn á ný eldgos í námunda við bæjarfélagið.
Er það mat stjórnar Síldarvinnslunnar hf. að farsælast sé um þessar mundir að beina athygli og orku stjórnenda að brýnni verkefnum í bolfiskhluta starfseminnar. Þegar félagið sér fyrir endann á þeim verður unnt að taka fyrirkomulag sölu- og markaðsmála aftur til skoðunar.
Það er einnig mat stjórnenda Síldarvinnslunnar hf. að íslensk sjávarútvegsfyrirtæki þurfi að styrkja stöðu sína til að viðhalda samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi, þar sem hlutdeild Íslands er agnarsmá. Þessi munur hefur farið vaxandi undanfarið þar sem erlend sjávarútvegsfyrirtæki, sem eru í samkeppni við íslensku fyrirtækin á erlendum mörkuðum um sölu sjávarafurða, stækka stöðugt og auka umsvif sín. Sama gildir um einstaka kaupendur.
Nauðsynlegt er fyrir íslenskan sjávarútveg í heild sinni að mæta þessum áskorunum erlendis með því að styrkja alþjóðleg sölufyrirtæki, sem geta keppt við þessa risa á grundvelli afhendingaröryggis, verðs og gæða.