Hugleiðingar veðurfræðings
Nú er lægið að leið til Færeyja og gera spár gera ráð fyrir að lægðarmiðjan verði nærri Færeyjum undir hádegi á morgun og þrýstingur í miðjunni þá 966 mb, sem er óvenjulega lág tala á þessum árstíma. Skemmst er frá því að segja að þessi lægð veldur norðan óveðri á landinu á næstunni. Versta veðrinu er spáð í nótt og á morgun, þriðjudag. Gular og appelsínugular veðurviðvaranir hafa verið gefnar út.
Nú síðdegis er kominn norðan strekkingur og á köflum allhvass eða hvass vindur sums staðar. Rigning eða slydda með köflum um landið norðanvert og snjókoma til fjalla. Um landið sunnanvert verður þurrt að mestu í kvöld. Veður fer kólnandi og í nótt má búast við samfelldri slyddu eða snjókomu á Norðaustur- og Austurlandi þegar bætir í úrkomu á þeim slóðum.
Á morgun er útlit fyrir norðan hvassviðri nokkuð víða, en stormur í vindstrengjum við fjöll á suðurhelmingi landsins. Snjókoma eða slydda norðan- og austantil á landinu um morguninn, en síðan hlýnar lítillega sem veldur því að úrkoman fer yfir í rigningu í láglendi og verður hún væntanlega í talsverðu magni. Sunnan heiða verður minni úrkoma, en einhver þó. Hiti á morgun 1 til 9 stig, kaldast í innsveitum fyrir norðan.
Áðurnefnd lægð ætlar síðan að verða þaulsetin austan við landið og þó hún verði farinn að grynnast og mesti vindurinn úr henni eftir miðja vikuna, þá eru líkur á að hún nái að viðhalda norðlægri átt með úrkomu og köldu veðri á norðanverðu landinu fram í vikulokin.
Spá gerð: 02.06.2025 15:39. Gildir til: 04.06.2025 00:00.
Veðurhorfur á landinu
Vaxandi norðanátt, slydda eða snjókoma á Norður- og Austurlandi, en þurrt að mestu um landið suðvestanvert. Hiti um eða yfir frostmarki.
Norðan 13-23 m/s í dag, hvassast í vindstrengjum sunnanlands. Snjókoma eða slydda norðan- og austantil um morguninn, en hlýnar síðan með talsverðri rigningu á láglendi. Úrkomuminna sunnan heiða. Hiti 3 til 9 stig seinnipartinn. Fer að draga úr vindi undir kvöld.
Spá gerð: 03.06.2025 00:20. Gildir til: 04.06.2025 00:00.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á miðvikudag:
Norðan 10-18 m/s, en 8-15 seinnipartinn. Rigning um landið norðanvert og hiti 2 til 7 stig, sums staðar talsverð úrkoma fram eftir degi. Þurrt að kalla sunnan heiða með hita 7 til 13 stig.
Á fimmtudag og föstudag:
Norðan og norðvestan 8-15 og rigning eða slydda með köflum, en þurrt að mestu sunnanlands. Hiti breytist lítið.
Á laugardag:
Norðlæg eða breytileg átt 3-10, skýjað með köflum og dálitlar skúrir eða slydduél á víð og dreif. Hiti 2 til 11 stig, mildast syðst.
Á sunnudag (hvítasunnudagur):
Suðvestlæg eða breytileg átt og víða dálitlar skúrir. Hlýnar lítillega.
Á mánudag (annar í hvítasunnu):
Austlæg átt og væta með köflum, en lengst af þurrt á Norðurlandi. Hiti 5 til 12 stig.
Spá gerð: 02.06.2025 20:45. Gildir til: 09.06.2025 12:00.