Nú er tímabil ferðalaga og fjölmargir Íslendingar þeysast um landið í leit að besta veðrinu með bílinn hlaðinn fólki og farangri. Eitt af mikilvægustu atriðum til að tryggja gott sumarfrí er að öryggi okkar og annarra í umferðinni sé eins gott og hugsast getur. Allir ökumenn ættu að þekkja mikilvægi þess að hafa ljósabúnað í lagi, dekkin góð og auðvitað tryggja notkun öryggisbelta. Hins vegar eru því miður allt of margir sem eru ekki meðvitaðir um raungetu bílsins til burðar og dráttar. En rétt hleðsla í takt við fyrirmæli framleiðenda getur skipt sköpum fyrir rétt virkni stýringu, hemla ásamt auknu álagi og sliti á hjólabúnað bílsins í heild sinni. FÍB fer vandlega yfir málið:
Með öllum bílum fylgir gerðarviðurkenning sem er upplýsingaskjal frá framleiðanda þar sem hann staðfestir stærðartölur, útblástur, öryggisbúnað og fleira. Allar þessar upplýsingar þurfa að standast lög og reglugerðir til að bifreiðin fái skráningu hér á landi. Einn af þessum þáttum eru þyngdar upplýsingar á bílnum þ.e. hver er eigin þyngd, burðargeta og heildarþyngd sem er samanlögð burðargeta og eigin þyngd. Þá gefur framleiðandinn einnig upp hver sé heimil hámarksþyngd eftirvagns með og án hemla sé hann á annað borð með heimild til að draga.
Aukin þyngd nýrra bíla
Bílaframleiðendur hafa staðið frammi fyrir fjölmörgum nýjum áskorunum í takt við aukna eftirspurn og samkeppni á rafbílamarkaðnum og er þyngd á drifrafhlöðunum þar ofarlega á lista. Auk þess bætast við auknar kröfur um öryggisbúnað og þægindi sem leggja sitt á vogaskálarnar. Nú er svo komið að smærri rafmagnsbílar eru orðnir hátt í 50% þyngri en fyrirrennari þeirra fyrir nokkrum árum og sem dæmi má nefna að nýi Ford 150 pallbíllinn er 725 kg þyngri en eldsneytisútgáfan og rafmagns Volvo XC40 rúmlega 450 kg þyngri.
Þrátt fyrir aukna þyngd rafhlaðna þá virðast framleiðendur ekki hafa séð sér fært að hækka burðargetu bílana í takt við aukna eigin þyngd. Reglulega hefur verið bent á þetta við bílaprófanir í FÍB blaðinu og birtu NAF norsku systursamtök FÍB áhugaverða grein þessu tengt þar sem tekin er saman burðargeta ýmissa rafbíla í takt við farþega og farangur. Niðurstöðurnar sýndu augljóslega að burðargetu bílana er ábótavant í flestum tilfellum.
Flestir stærri rafmagnsbílar hafa einnig dráttargetu fyrir eftirvagn og þarf því að reikna með þeirri þyngd sem leggst aukalega á dráttarkúluna og getur hæglega orðið 70 kg en burðargeta dráttarbeislis er á bilinu 40 – 100 kg. Sama gildir um farangursbox og reiðhjólafestingar á þak bílsins eða dráttarkúlu, allt eykur þetta á þyngd og liggja þær tölur fyrir í skráningarskírteini bílsins.
Lög, reglugerðir og skilmálar
Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja (822/2004 – 08.11) skal miða við að ökumaður vegi 75 kg og hver farþegi 68 kg. Þessi viðmið eru ekki endilega að endurspegla raunveruleikann en samkvæmt rannsókn Landlæknis á heilsu og líðan Íslendinga þá er meðalþyngd Íslendinga á fullorðinsaldri nær 81 kg.
Í sömu reglugerð er einnig tekið fram að sætafjöldi skuli ráðast af þeirri burðargetu sem er til ráðstöfunar hverju sinni. Miðað við þetta þá má ætla að þó nokkuð sé af bílum í umferðinni sem hafa ekki heimild fyrir fjóra farþega strax frá fyrstu skráningu og standast þar af leiðandi ekki reglubundna aðalskoðun bifreiða.
Sektir við akstur á bifreið sem er ofhlaðin miðað við skráningarskírteini er á bilinu 20.000 – 100.000 kr. eftir alvarleika brotsins. (2.mgr. 80.gr.) Þá er bifreiðin kyrrsett þar til búið er að tryggja að heildarþyngd bílsins sé samkvæmt skráningu.
Í ábyrgðarskilmálum flestra bílaframleiðenda er sérstaklega tekið fram að ofhleðsla bifreiðar geti ógilt verksmiðjuábyrgð gagnvart bilunum.
Í tryggingaskilmálum allra tryggingafélaganna er gerð krafa um að eigandi/umráðamaður gangi úr skugga um að bifreiðin og öryggisbúnaður bifreiðarinnar sé í lagi. Verði vátryggjandi uppvís um annað getur það leitt af sér skerðingu eða brottfall bótaábyrgðar.
Þá er einnig ástæða til að vekja athygli á því að vagnlest þ.e. samanlögð heildarþyngd bíls og eftirvagns er í mörgum tilfellum að fara yfir 3500 kg en ökumaður með B réttindi má ekki aka með þyngri vagnlest en 3500 kg. Nánar má finna upplýsingar um réttindi og eftirvagna á heimasíðu Samgöngustofu.
Afleiðing ofhleðslu
Eins og segir í byrjun greinarinnar þá fylgir öllum bílum staðfesting á því hversu mikið framleiðandinn segir bílinn þola í hleðslu miðað við útbúnað. Sé farið yfir þá hleðslu ábyrgist framleiðandinn ekki eðlilega virkni eða endingu. Þetta á meðal annars við um hemlakerfi og hemlunarvegalengd, legur, fóðringar og fjöðrunarbúnað en ofhleðsla á fjöðrun getur einnig valdið óeðlilegum hreyfingum í bílnum og skertri stjórn. Ofhleðsla eykur einnig álag á drifbúnað og rafhlöðu. Að auki getur verið ástæða til að kynna sér burðargetu hjólbarða undir bílnum og sérstaklega lofþrýsting þar sem of lágur þrýstingur myndar meiri núning og hita á dekkjum sem gerir dekkið viðkvæmara fyrir ójöfnum og styttir endingartíma.
Staðan á Íslandi
Taflan hér að neðan byggð á gögnum úr ökutækjaskrá yfir nokkra rafbíla sem eru áberandi á íslenska rafbílamarkaðnum. Takið eftir að skráningar á Tesla bifreiðum hafa verið breytilegar á milli ára en 2021 árgerð af Model 3 kemur þar verst út með 96 kg í yfirvigt m.v. ökumann og fjóra farþega. Tölurnar síðan heldur verri sé ekið með fimm fullorðna í meðalþyngd en þá er bíllinn kominn 154 kg í yfirvigt sem er langt umfram getu bílsins. Alls eru fjórir af tólf rafbílum á listanum sem standast ekki reglugerð Samgönguráðuneytisins og ættu í raun að missa skráningu á einu til tveimur sætum. Sé miðað við rauntölur um þyngd Íslendinga þá eru sjö bílar af tólf yfir burðargetu. Í þessum tölum hefur ekki verið tekið tillit til farangurs eða aðra hleðslu.
Eigin þyngd og leyfð heildarþyngd bifreiða má fletta upp eftir bílnúmerum á heimasíðu Samgöngustofu og hvetjum við bifreiðaeigendur til að kynna sér burðargetu bílsins.