Landa og fíkniefnasalar undirbúa helgina
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu lagði hald á töluvert magn af landa og gambra í heimahúsi í umdæminu í nótt eftir að henni höfðu borist ábendingar um að þar innandyra færi fram sala og framleiðsla á ólöglegu áfengi, eða „landa“.
Við komuna á vettvang mátti strax greina mikla áfengislykt, en innandyra fannst gambri í tunnum og landi í flöskum. Húsráðendur, sem höfðu ekki leyfi til áfengisframleiðslu, játuðu sök, en auk landa og gambra var lagt hald á nokkuð af búnaði sem fylgdi starfseminni.
Reikna má með að lögreglan verði með fíkniefnahunda á þeim svæðum sem að fólk safnast saman um helgina og víðar.
Lögreglan mun vakta hverfi borgarinnar
Það er fátt óskemmtilegra en að koma heim úr ferðalagi og verða þess var að innbrotsþjófar hafi látið greipar sópa um heimilið. Af þeirri ástæðu munu lögreglumenn fylgjast með íbúðarhúsnæði um verslunarmannahelgina eins og kostur er.
Lögreglan vill jafnframt hvetja fólk, sem heldur burt af höfuðborgarsvæðinu í lengri eða skemmri tíma, til að ganga tryggilega frá heimilum sínum. Gott ráð er biðja nágranna um að líta eftir húsnæði. Fá þá til að kveikja ljós, fjarlægja póst, leggja í bílastæði o.s. frv. Sömuleiðis er minnt á mikilvægi þess að verðmæti séu ekki skilin eftir í augsýn en þjófar sækjast m.a. eftir fartölvum, myndavélum o.þ.h. hlutum. Þá er rétt að hafa hugfast að GPS-tækjum er oft stolið úr bílum og því nauðsynlegt að gera viðeigandi ráðstafanir þegar ökutæki er yfirgefið.
Lögreglan hvetur líka fólk til að láta vita um grunsamlegar mannaferðir. Það getur oft skipt miklu máli að fá lýsingu á mönnum og bifreiðum. Það er betra að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessi tagi en einu sinni of sjaldan.
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver embættisins á Hverfisgötu 113-115, Reykjavík, í síma 444 1000. Þá er enn fremur rétt að minna á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en þar er hægt að senda henni einkaskilaboð.