Frumvarp um breytingu á lögum um grunnskóla hefur verið lagt til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Frumvarpið felur í sér að mennta- og barnamálaráðherra fái skýra heimild til að setja reglugerð um notkun síma og snjalltækja í skóla- og frístundastarfi.
Markmið slíkra reglna er að tryggja jafnræði milli skóla og stuðla að jákvæðu og öruggu skólaumhverfi. Reglugerðin verður unnin í samráði við hagsmunaaðila verði frumvarpið að lögum.
Hröð tækniþróun hefur haft töluverð áhrif á skólastarf en á sama tíma skapað margs konar áskoranir og ný tækifæri. Undanfarið hefur átt sér stað umræða í samfélaginu, sem og víða í Evrópu, hvort banna eða takmarka eigi notkun síma og snjalltækja í skóla- og frístundastarfi og útfærslu á þeirri notkun.
Á Íslandi er hvorki samræmd stefna né miðlægar reglur um notkun barna á símum og snjalltækjum í skólum en þó hafa flestir grunnskólar hér á landi sett sér reglur eða viðmið um slíka notkun. Mikilvægt er að samræma lágmarksviðmið og undanþágur í reglugerð til að ná því markmiði að bæta náms- og félagsumhverfi og líðan nemenda í skólum á landsvísu.
Með því að styrkja heimildir mennta- og barnamálaráðherra til að setja miðlægar reglur skapast jafnframt ákveðinn sveigjanleiki til að bregðast með skjótari hætti við þeim áskorunum sem hröð tækniþróun hefur í för með sér í stað þess að kveða á um slíka notkun í löggjöf.