,,Þetta er athyglisverð yfirlýsing hjá framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins að viðræður við Starfsgreinasamband Íslands og Iðnaðarmannafélögin séu nánast komin á lokastig.
Halldór Benjamín viðurkennir þó að viðræðurnar við Verkalýðsfélag Akraness, Grindavíkur, Eflingu og VR séu komnar styttra á veg.
Ástæðan fyrir því hefur ekkert með að félögin vísuðu deilu sinni til ríkissáttasemjara heldur vegna þess að þessi stéttarfélög hafa alfarið hafnað öllum hugmyndum Samtaka atvinnulífsins um að selja kaffitíma launafólks, lengja dagvinnutímabilið með því að dagvinna teljist frá 06:00 til 19:00. Einnig hafa Samtök atvinnulífsins gert kröfu um að uppgjörstímabil á yfirvinnu skuli reiknast á 3 mánaða tímabili.
Þetta þýðir á mannamáli að verkafólk á að kaupa sínar launahækkanir að stórum hluta sjálft með því að hella yfirvinnu yfir á dagvinnu, en rétt er að geta þess einnig SA vil að yfirvinnuálagsprósentan verði 66% af dagvinnu en ekki 80% eins og nú er.
Öllum þessum atriðum hafa Verkalýðfélag Akraness, Grindavíkur, Efling og VR hafnað algerlega, enda stendur ekki til að þessi kjarasamningur byggist á því að launafólk kaupi sínar launabreytingar að stórum hluta sjálft í formi þessara hugmynda sem Samtök atvinnulífsins vilja leggja upp með.
Ég ítreka að ástæða þess að viðræður Verkalýðsfélags Akraness, Grindavíkur, Eflingar og VR séu komnar styttra á veg er vegna þess að þessi félög hafna þessum hugmyndum og eru alls ekki tilbúin að láta Samtök atvinnulífsins leiða sig inn á braut eftirgjafar og linkindar þar sem launafólk á t.d. að selja frá sér áunnin réttindi sem barist hefur verið fyrir í gegnum árin og áratugina, eins og t.d. þeim sjálfsögðu mannréttindum að launafólk eigi rétt á kaffitímum.
Það blasir við að um miðjan þessa mánaðar mun liggja fyrir hvað stjórnvöld ætla að koma með til að liðka fyrir þessum viðræðum sem og hvað Samtök atvinnulífsins verða tilbúin að koma til móts við okkar kröfur.
Ég vil bara vera alveg heiðarlegur með það að ég tel mun meiri líkur á því að hér stefni í hörð verkafallsátök hjá verkafólki í byrjun marsmánaðar, en að samningar náist. Þetta er allavega mitt mat eins og staðan er í viðræðum við Samtök atvinnulífsins þessa stundina. Ég skal líka viðurkenna að ég tel okkur hafa sýnt þessum kjaraviðræðum ótrúlegt langlundargeð, en okkar von er að okkur takist að landa kjarasamningi sem verður okkar fólki til hagsbóta og allt launafólk geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar og haldið mannlegri reisn, ekki bara sumir!
Við leggjum gríðarlega áherslu á að ráðstöfunartekjur lægstu launa dugi fyrir framfærsluviðmiðum sem Velferðaráðneytið hefur gefið út. Því miður er ekki slíku til að dreifa núna og ekki verður gengið frá kjarasamningi nema okkur takist að auka ráðstöfunartekjur umtalsvert.“ Sagði Vilhjálmur Birgisson.