Hinn nýi forstjóri Vegagerðarinnar, Bergþóra Þorkelsdóttir, talar fyrir því að auka enn frekar álögur á bíla og umferð. Í viðtali á Rás 2 þann 24. janúar lýsti hún sig hlynnta vegtollum til að fjármagna nauðsynlegar endurbætur á vegakerfinu, sem hún sagði sprungið.
Í viðtalinu lýsti forstjórinn vanþekkingu á hvað veldur því að vegakerfið er „sprungið“ að því er kemur fram á vef FÍB. ,,Hún varpaði sökinni á erlendu ferðamennina sem fara um landið á bílaleigubílum. „Þetta aukna álag sem er á kerfið kemur frá fólki sem kemur hingað og vill nota þetta kerfi,“ sagði forstjórinn. Taldi hún þar af leiðandi ástæðu til að fara að rukka „einhverskonar gjald“ af túristum með vegtollum. Ekki gat hún þess að nú þegar greiða ferðamenn það sama og allir aðrir hér á landi fyrir afnot af vegakerfinu. Hún skautaði einnig framhjá því að auknar álögur á ferðamenn eru um leið auknar álögur á alla landsmenn.
Erlendir ferðamenn eiga 17% af umferðinni
Alls voru eknir um 3.600 milljónir kílómetra á vegum landsins árið 2017. Samkvæmt úttekt fyrirtækisins Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar óku erlendir ferðamenn um 635 milljón kílómetra 2017, eða rúm 17% af heildarakstrinum. Frá því að ferðamannastraumurinn jókst hér á landi upp úr 2011 hefur erlendum ferðamönnum fjölgað um rúm 300%, eða úr tæpum 700 þúsund í 2,2 milljónir. Samkvæmt vísitölu meðalumferðar á 16 lykilteljurum á hringveginum jókst umferðin um 53% frá 2012 til 2018. Mest jókst hún á Suðurlandi, um 82%, tæplega 50% kringum höfuðborgarsvæðið og á Vesturlandi og í kringum 60% á Norðurlandi og Austurlandi.
„Ég hef ekki þekkingu á því“
Vissulega er 53% aukning meðalumferðar mikil á aðeins 5 árum. En er vegakerfið „sprungið“ vegna ferðamanna á fólksbílum sem vega að jafnaði 1-2 tonn? Hvað með þungaflutningana sem hafa stóraukist á undanförnum árum eftir því sem þjóðartekjur hafa aukist? Daglega fara hundruð 20-40 tonna flutningabíla um landið þvert og endilangt. Reiknað hefur verið út að einn slíkur flutningabíll valdi sama álagi og niðurbroti á undirlagi veganna og nokkur þúsund fólksbílar.
Í viðtalinu á Rás 2 var forstjóri Vegagerðarinnar spurð út í áhrifin af þungaflutningunum á vegakerfið. Því sagðist hún ekki geta svarað. „Ég hef ekki þekkingu á því“ sagði forstjóri Vegagerðarinnar. Já, forstjóri Vegagerðarinnar.
Raunverulega ástæðan
Hvernig má það vera – jafnvel þó forstjórinn sé ný í starfinu – að hún tali ekki hreint út um hina raunverulegu ástæðu fyrir því að vegakerfið er sprungið. Hún hefði t.d. getað lesið það sem forveri hennar í starfinu sagði í ársskýrslu Vegagerðarinnar 2017. „Frá efnahagshruni höfðu þessar fjárveitingar verið skornar mikið niður og ástand vegakerfsins víða orðið bágborið, enda umferð vaxið mikið. Talið er að uppsafnaður vandi vegna viðhaldsskorts sé yfir 60 milljarðar þannig að það mun taka langan tíma að ná vegunum aftur upp í viðunandi ástand, nema þeim mun stærri skref verði tekin í fjárveitingum til málaflokksins á næstu árum.“ Athugið, þarna var þáverandi vegamálastjóri aðeins að ræða um uppsafnaðan kostnað vegna vegaviðhalds. Nýframkvæmdir voru ekki inni í tölunni.
Forstjórinn hefði líka getað gluggað í frétt Vegagerðarinnar frá árinu 2013, um það leyti sem ferðamönnum fór fyrst eitthvað að fjölga. Þar sagði: „Niðurstöðurnar leiða í ljós, að þrátt fyrir fulla nýtingu viðhaldsfjármagns á yfirstandandi ári, munu 2058 km. af vegum með bundnu slitlagi ekki standast lágmarkskröfur Vegagerðarinnar í árslok 2013. Sé litið til næstu ára miðað við óbreytt fjármagn, er ljóst að þróunin er uggvænleg og í árslok 2017 er heildarlengd þessara vega sem ekki uppfylla lágmarkskröfur orðin alls 3064 km. Með öðrum orðum er fyrirsjáanlegt að 58% af vegakerfi landsins með bundnu slitlagi árið 2017 er undir þeim mörkum, að þeim verði haldið við með eðlilegum hætti til framtíðar.“
Vegakerfið var sprungið áður en ferðamönnum fór að fjölga
Þessi 6 ára gamla framtíðarsýn reyndist því miður sannspá. Vegakerfið er sprungið, þar fer forstjóri Vegagerðarinnar svo sannarlega með rétt mál. Og í þessari spá var ekki einu sinni gert ráð fyrir aukinni umferð ferðamanna á bílaleigubílum. Þetta er einfaldlega afleiðing áframhaldandi fjársveltis til uppbyggingar og viðhalds þjóðveganna og hefur lítið sem ekkert með aukna umferð fólksbíla að gera.
Efnahagshrunið varð 2008. Ferðamönnum tók fyrst að fjölga lítillega 5 árum síðar og enn meira 7 árum síðar – 2015. Öll árin á undan og eftir, í 11 ár samfleytt, hefur vegakerfið verið alvarlega fjársvelt og er fyrir vikið komið að niðurlotum, sérstaklega hvað öryggi varðar. Allan þennan tíma hafa skattar af innflutningi ökutækja og notkun þeirra verið mun hærri en sem nemur framlögum til veganna. Allan þennan tíma hafa erlendir ferðamenn borgað nákvæmlega sömu skatta og við heimamenn fyrir akstur sinn. Og einmitt vegna ferðamannanna hafa þessar skattgreiðslur aukist.
Undarlegt er að forstjóri Vegagerðarinnar skuli með þessum hætti tala niður gestina sem drifið hafa hagvöxt undanfarin tíu ár og komið okkur út úr þeirri alvarlegu kreppu sem leiddi af falli fjármálakerfisins. Hugmyndir hennar um einhvers konar sérstaka vegtolla á ferðamenn ganga gegn almennri skynsemi og geta í versta falli haft neikvæð áhrif á komu ferðamanna. Heldur einhver að vegirnir batni ef ferðamönnum fækkar?
Bætist í lýðræðishallann
Þó svo að forstjóri Vegagerðarinnar sé ekki þjóðkjörin og setji ekki lög, þá hefur hún áhrif í krafti embættisins. Stuðningur hennar við álagningu vegtolla er lóð á vogarskálar þess lýðræðishalla sem einkennir þessar hugmyndir. Fyrir síðustu kosningar talaði enginn stjórnmálamaður um að hann vildi vegtolla. Reyndar sagðist núverandi samgönguráðherra vera á móti þeim. Svo þegar hann fór að tala fyrir vegtollum eftir kosningar, þá sagðist hann vera maður að meiri að geta skipt um skoðun. Vitaskuld hefði verið heiðarlegra af honum að lýsa vegtollaáformum sínum fyrir kosningar, svo fólk gæti tekið afstöðu til hans út frá þeim.
En svo er hitt. Aldrei minnast tollheimtumenn á stefnumótun stjórnvalda frá 2010 um grundvallarbreytingu á fjármögnun vegamála í landinu. Þar sagði m.a.: „Um eða fyrir 2020 er stefnt að því að tekin verði upp svokölluð notendagjöld sem yrðu innheimt í samræmi við ekna kílómetra á vegakerfinu og gerð ökutækis. Samtímis yrðu núverandi eldsneytisgjöld felld niður.“
Vegtollar eru vond innheimtuaðferð
Eins og FÍB hefur bent á eru vegtollar vond aðferð til að ná í tekjur af umferð. Innheimta vegtolla er mjög dýr, 15-80% af tekjum, sérstaklega í samanburði við núverandi innheimtuaðferðir sem eru skattar á ökutæki og eldsneyti. Tekjur af vegtollum fara að mestu leyti í innheimtukostnaðinn á fáfarnari slóðum. Því yrðu vegtollar aðeins innheimtir á fjölförnustu leiðunum kringum höfuðborgarsvæðið. FÍB hefur einnig bent á að í reynd er engin þörf fyrir auknar tekjur af úrbótum í vegakerfinu, vegna þess að þær borga fyrir sig sjálfar. Góðar og öruggar samgöngur skila þjóðhagslegum ábata og lækkun slysakostnaðar.
Álögur á bíla og umferð nú þegar nógu miklar
Á þessu ári (2019) munu heildartekjur af bílum og umferð skila 65 milljörðum króna í ríkissjóð (auk virðisaukaskatts). Á sama tíma er aðeins 29 milljörðum varið í uppbyggingu og viðhald vegakerfisins. Það gefur því auga leið að engin þörf er á auknum álögum, eins og forstjóri Vegagerðarinnar og samgönguráðherra tala fyrir.“ Segir á vef FÍB.