Á föstudaginn 1 febrúar var haldinn stofnfundur félags um verslun í Árneshreppi.
Verslun lagðist af í hreppnum í haust og hafa íbúar hreppsins þurft að panta vörur og fá þær sendar með flugi, þar sem ekki er mokað að jafnaði í Árneshrepp frá áramótum til 20. mars. Það er því afar áríðandi að koma á verslun fyrir þá íbúa sem hafa vetursetu í Árneshreppi.
Fjöldi fólks lýsti yfir stuðningi við verkefnið og áhuga á því að eignast hlutafé í versluninni. Um 4.000.000 kr söfnuðust í hlutafé og eru hluthafar tæplega 70. Sett var 100.000 kr hámark á hlutafjárkaup til að tryggja dreifða eignaraðild.
Stofnfundurinn var haldinn í húsnæði verslunarinnar í Norðurfirði. Það var góð mæting og ríkti bjartsýni á fundinum.
Félagið fékk nafnið Verzlunarfjelag Árneshrepps. ehf, og er stefnt að því að opna með takmarkaðan opnunartíma strax á vormánuðum og síðan með fullum opnunartíma í sumarbyrjun.
Það var fréttavefurinn Litlihjalli í Árneshreppi sem að greindi frá.