Athugasemd Matvælastofnunar vegna tilkynningar Dýraverndunarsambands Íslands
Matvælastofnun vill koma eftirfarandi á framfæri vegna tilkynningar sem Dýraverndunarsamband Íslands sendi frá sér þann 2. febrúar sl. um dýr í neyð á Norðurlandi og kröfu um tafarlausar aðgerðir af hálfu yfirvalda í málinu.
Eftirlit Matvælastofnunar sýndi fram á að nautgripir sem um ræðir voru hvorki í neyð né horaðir
Matvælastofnun framkvæmdi eftirlit á viðkomandi bæ þann 16. nóvember sl. Eftirlitið sem var óboðað fór fram vegna ábendingar sem stofnuninni barst um slæman aðbúnað nautgripa á bænum. Frávik um hreinleika nokkurra gripa og athugsemd við herðakambslá var skráð en önnur skoðunaratriði reyndust í lagi. Við eftirlitið var ekki mikill skítur undir nautgripum og hálmur var til staðar. Fyrrnefndar athugasemdir voru ekki tilgreindar sem alvarleg frávik og í samræmi við skráð verklag var veittur hefðbundinn frestur til úrbóta.
Í kjölfar eftirlitsins barst stofnuninni önnur ábending um slæman aðbúnað á sama bæ og fylgdi Matvælastofnun ábendingunni eftir þann 6. desember sl. Ekki var tilefni til að skrá frávik.
Þann 30. janúar sl. fylgdi Matvælastofnun eftir þriðju ábendingunni sem stofnuninni barst vegna aðbúnaðar á bænum. Ekki var tilefni til að skrá frávik.
Þær myndir sem Dýraverndunarsambandið vísar til í yfirlýsingu sinni og sendar hafa verið til stofnunarinnar gefa ekki rétta mynd af holdafari nautgripanna eða aðstæðum á bænum á fyrrnefndu tímabili. Myndirnar voru ekki í samræmi við aðstæður eins og þær hafa birst eftirlitsmönnum stofnunnarinnar í þau þrjú skipti sem stofnunin hefur fylgt eftir ábendingum um umhirðu og aðbúnað nautgripa á bænum og kemur fram í eftirlitsskýrslu stofnunarinnar.
Búfjárhald á bænum mun sæta reglubundnu eftirliti áfram.
Skoðunaratriði eru metin í samræmi við skoðunarhandbók sem gefin hefur verið út varðandi nautgripaeldi: https://umsokn.mast.is/onequalityweb/Displaydocument.aspx?itemid=276364209870730246241