Það var í mörg horn að líta hjá lögreglunni um helgina, en m.a. voru fjörutíu og sex ökumenn teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu. Hinir sömu voru stöðvaðir víðs vegar í umdæminu og þar af einn sem var tekinn fyrir þessar sakir í tvígang, fyrst á föstudagskvöld og svo aftur aðfaranótt sunnudags.
Þetta voru þrjátíu og sex karlar og tíu konur, en yngsti ökumaðurinn er 18 ára og sá elsti 66 ára. Um leið og það er gott að þessir ökumenn voru stöðvaðir í umferðinni er það að sama skapi afskaplega dapurlegt að svo margir skuli setja sjálfa sig og aðra í hættu með þessu dómgreindarleysi.
Í síðustu viku slösuðust sextán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 24. febrúar – 2. mars.
Mánudaginn 25. febrúar kl. 11.46 varð gangandi vegfarandi á leið vestur yfir Bæjarhraun gegnt húsi nr. 18 fyrir bifreið, sem var ekið aftur á bak suður götuna. Hann var fluttur á slysadeild. Þriðjudaginn 26. febrúar kl. 16.08 varð tveggja bifreiða aftanákeyrsla í afrein Suðurlandsbrautar til austurs að Grensásvegi til suðurs. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 27. febrúar. Kl. 11.20 var bifreið ekið á ljósastaur við gatnamót Logafoldar og Reykjafoldar. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.50 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Breiðholtsbraut, og bifreið, sem var ekið afrein Reykjanesbrautar til suðurs og beygt austur Breiðholtsbraut. Báðir ökumennirnir, auk þriggja farþega, voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 28. febrúar. Kl. 19.31 varð gangandi vegfarandi á leið til austurs yfir Lambhagaveg á ómerkrtri gönguþverun norðan við gatnamót Lambhagavegar og Lambhagavegar (Rebook) fyrir bifreið á Lambhagavegi til norðurs. Hann var fluttur á slysadeild. Kl. 21.10 varð árekstur með bifreið, sem var ekið vestur Sæbraut og beygt suður Snorrabraut, og bifreið, sem var ekið austur Sæbraut. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 22.36 varð aftanákeyrsla á Vesturlandsvegi til norðurs gegnt Sjávarhólum. Ökumaður aftari bifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur. Ökumaður og farþegi í fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Föstudaginn 1. mars kl. 21.04 var bifreið ekið norður Hraunhellu og á ljósastaur við götuna. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 2. mars. Kl. 8.33 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg og yfir hringtorg gegnt Lambhagavegi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.06 var bifreið ekið á ljósastaur við gatnamót Hafnarfjarðarvegar og Nýbýlavegar eftir að hafa verið þvingað út af veginum. Farþegi var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli allra vegfaranda á mikilvægi þess að fara ávallt varlega í umferðinni. Það á ekki síst við um ökumenn – hvort sem um er að ræða bifreiða eða reiðhjóla.