Að undangengnu samráði, innan lands sem utan, hefur dómsmálaráðherra ákveðið að virkja 44. gr. útlendingalaga nr. 80/2016 þegar í stað, vegna fjöldaflótta í kjölfar innrásar Rússlands í Úkraínu. Þessi ákvörðun er í samræmi við þá ákvörðun ESB að virkja samskonar úrræði með tilskipun nr. 2001/55/EB um tímabundna vernd vegna fjöldaflótta. Móttaka flóttamanna hérlendis mun ná til sömu skilgreindu hópa og þeirra sem ESB hefur ákvarðað. Þessi aðferð er fyrst og fremst til þess að geta veitt þeim sem flýja Úkraínu skjóta og skilvirka aðstoð, nánar tiltekið tímabundna vernd, án þess að móttakan og aðstoðin verði verndarkerfi Íslands ofviða.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur gefið út tilkynningar um fjöldaflótta frá Úkraínu og áætlar að allt að 4 milljónir manna flýi átökin á næstu dögum og vikum. Dómsmálaráðuneytið hefur átt náið samstarf við þátttökuríki Schengen-samstarfsins, m.a. vegna fyrirhugaðrar virkjunar tilskipunar nr. 2001/55/EB um tímabundna vernd vegna fjöldaflótta.
Í 44. grein kemur fram að útlendingi sem er hluti af hópi sem flýr tiltekið landsvæði og kemur til landsins eða er hér þegar ákvæðum greinarinnar er beitt má að fenginni umsókn um alþjóðlega vernd veita vernd á grundvelli hópmats eða veita svokallaða sameiginlega vernd. Felur það í sér að útlendingnum verður veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. 74. gr. útlendingalaga nr. 80/2016.
Dvalarleyfið er veitt til eins árs í senn með heimild til að endurnýja eða framlengja í allt að þrjú ár frá því að umsækjandi fékk fyrst leyfi. Eftir það má veita leyfi skv. 74. gr. sem getur verið grundvöllur ótímabundins dvalarleyfis. Að liðnu einu ári með slíkt leyfi, sem er þá fjórða árið frá upphafi, er heimilt að gefa út ótímabundið dvalarleyfi enda séu skilyrðin fyrir því að halda leyfinu enn fyrir hendi og skilyrðum að öðru leyti fullnægt.
Aðgangur að þjónustu
Dvalarleyfið sem einstaklingum verður veitt á þessum grundvelli felur í sér sömu réttindi og aðgengi að þjónustu og dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. útlendingalaga. Það þýðir aðgengi að húsnæði, framfærslu, félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og aðgengi að atvinnumarkaðnum. Þessi réttindi eru að mestu leyti þau sömu og einstaklingar munu fá í öðrum ríkjum Evrópu á grundvelli tilskipunar 2001/55/EB.
Atvinnuréttindi
Samkvæmt núgildandi lögum um atvinnuréttindi útlendinga nr. 97/2002 fá þeir sem hljóta dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða einungis skilyrtan aðgang að atvinnumarkaðnum hér á landi sem byggist á því að vinnuveitandi þarf að sækja um atvinnuleyfi fyrir viðkomandi. Flóttamenn frá Úkraínu geta því samkvæmt þessu haft aðgang að íslenskum vinnumarkaði. Í frumvarpi til breytinga á lögum um útlendinga, sem nú er í vinnslu í dómsmálaráðuneytinu, er lagt til að breyta þessum ákvæðum laga um atvinnuréttindi útlendinga með þeim hætti að allir þeir sem fá dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, fái sjálfkrafa og milliliðalaust atvinnuleyfi samhliða dvalarleyfinu.